133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

breyting á XXII. viðauka við EES-samninginn.

349. mál
[17:26]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 70/2005, um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn og til að fella inn í samninginn tilskipun 2004/25/EB, um yfirtökutilboð.

Eins og með fyrri ákvarðanir er gerð grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir.

Tilskipunin miðar að því að samræma og styrkja reglur um yfirtökutilboð í Evrópu og tryggja jafna meðferð og aukin réttindi hluthafa í yfirtökum. Þetta eru lágmarksskilyrði sem ná bæði til skyldubundinna tilboða og almennra valfrjálsra tilboða, en aðildarríkjum er heimilt að setja fleiri skilyrði og strangari ákvæði en kveðið er á um í tilskipuninni.

Þá er fjallað um tilboðsskyldu, skilyrði um lágmarksverð í tilboði og greiðslumáta, sem og um upplýsingagjöf tilboðsgjafa. Tilskipunin fjallar einnig um skyldur stjórnar í félagi sem tilboð tekur til. Loks er í tilskipuninni kveðið á um að setja skuli reglur um samkeppnistilboð, breytingar á tilboði og afturköllun tilboðs, sem og um upplýsingaskyldu tilboðsgjafa varðandi niðurstöður tilboðs.

Tilskipunin hefur að mestu verið innleidd með lögum frá Alþingi nr. 31/2005, um breytingu á lögum nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti. Viðskiptaráðuneytið vinnur að innleiðingu þeirra ákvæða sem ekki hafa þegar verið leidd í íslenska löggjöf.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og utanríkismálanefndar.