133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

mannanöfn.

339. mál
[17:31]
Hlusta

Flm. (Björn Ingi Hrafnsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðjón Ólafur Jónsson og Sæunn Stefánsdóttir.

Fyrir einstökum breytingum er gerð nánari grein í frumvarpinu en þær ganga einkum út á að leggja niður svokallaða mannanafnanefnd og þar með þá skrá sem sú nefnd heldur úti sem er svokölluð mannanafnaskrá. Þetta þýðir breytingar á 3. gr. núgildandi laga, þ.e. að 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. falli brott. Einnig er breyting í 2. og 3. gr. frumvarpsins á 8. og 13. gr. laganna, þar sem orðið dómsmálaráðherra kemur í stað „mannanafnanefndar“.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að nafn manna hafi löngum verið talið einn mikilvægasti þáttur sjálfsmyndar þeirra og margir hafi litið svo á að það varðaði fremur einkahagi fólks og persónurétt þess en hagsmuni alls almennings. Enn á við það sjónarmið fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Þorsteins Pálssonar, sem kom fram við setningu mannanafnalaga á sínum tíma, þ.e. þeirrar breytingar sem var gerð á þeim, að þótt brýnt sé að sjálfsögðu að unnið sé að varðveislu íslenska mannanafnaforðans og íslenskra nafnasiða sé yfirleitt farsælla að vinna að því markmiði með fræðslu og upplýsingu en með beinu lagaboði.

Þetta frumvarp er samið með það í huga að réttur foreldra til að ráða nafni barns síns sé mikill og óumdeildur, en veikari stoðir standi undir beinum afskiptum ríkisins eða löggjafans af slíkum ákvörðunum. Þá er þess og að geta að núgildandi lög hafa sætt mikilli gagnrýni, einkum hvað varðar mannanafnanefnd og úrskurði hennar. Þess eru jafnvel dæmi að nöfnum hafi verið hafnað, enda þótt þau eigi sér langa sögu í íslensku samfélagi og tungu og hafi jafnvel tíðkast innan sömu fjölskyldu í margar kynslóðir. Hefur þetta orðið tilefni mikilla sárinda og deilna, svo sem ítarlega hefur verið greint frá á opinberum vettvangi.

Með frumvarpi þessu er lagt til að mannanafnanefnd verði lögð niður og öll ákvæði um hana felld brott úr lögum um mannanöfn, nr. 45/1996. Lögboðið hlutverk mannanafnanefndar verði flutt til dómsmálaráðherra sem fer með mál er varða mannanöfn, sbr. 27. gr. laganna, og það verði hlutverk hans að skera úr álitamálum sem upp kunna að koma í sambandi við nafngiftir, nafnritun o.fl. Jafnframt verði mannanafnaskrá sem mannanafnanefnd hefur samið og gefið út lögð niður.

Markmið frumvarpsins er að undirstrika þá meginreglu, og það er rétt að undirstrika það varðandi ákvæðið um hlutverk hæstv. dómsmálaráðherra, varðandi nöfn og nafngiftir fólks að almennt skuli gert ráð fyrir að nöfn séu leyfð og aðeins sérstakar aðstæður í undantekningartilfellum geti orðið til þess að ríkisvaldið komi í veg fyrir slíkt. Slíkar aðstæður geti t.d. verið hreinar nafnleysur eða að ljóst sé að nafn geti orðið nafnbera til ama, samanber ákvæði núgildandi laga.

Helstu verkefni mannanafnanefndar sem nú starfar, eru þessi:

1. Að semja skrá um eiginnöfn og millinöfn sem teljast heimil skv. 5. og 6. gr. laga um mannanöfn og er hún nefnd mannanafnaskrá.

2. Að vera prestum, forstöðumönnum skráðra trúfélaga, Þjóðskrá, dómsmálaráðherra og forsjármönnum barna til ráðuneytis um nafngjafir og skera úr álita- og ágreiningsefnum um nöfn samkvæmt lögum um mannanöfn.

3. Að skera úr öðrum álita- eða ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um nafngjafir, nafnritun og fleira þess háttar.

Úrskurðum mannanafnanefndar er ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds.

Með því að mannanafnanefnd verði lögð niður hættir hið opinbera að gefa út samræmda skrá um þau nöfn sem unnt er að gefa einstaklingum hér á landi. Áfram verði í gildi meginreglur um fullt nafn, eiginnöfn, millinöfn, kenninöfn og nafngjöf, svo og reglur um nafnrétt manna af erlendum uppruna, nafnbreytingar og skráningu og notkun nafns.

Nöfn Íslendinga og málefni mannanafnanefndar eru ekki komin til umræðu hér í fyrsta sinn í sölum hv. Alþingis. Um þetta hefur verið rætt margsinnis á undanförnum árum. Það má þó segja hv. Alþingi til hróss að með breytingum sem gerðar voru á lögunum síðast árið 1996 voru sniðnir af vankantar sem höfðu valdið miklum deilum og að einhverju leyti má segja að minni styr hafi staðið um störf mannanafnanefndar síðan en þó eru þess ýmis dæmi að úrskurðir nefndarinnar hafi valdið mikilli fjölmiðlaumfjöllun. Síðan þetta frumvarp kom fram hér á hv. Alþingi og frá því var sagt í fjölmiðlum hefur sá sem hér stendur fengið ótölulegan fjölda af bréfum sem fela í sér reynslusögur einstaklinga af samskiptum sínum við nefndina. Sömuleiðis hef ég heyrt í fjölmörgum sem annaðhvort eru mjög sammála þessu frumvarpi eða þá hitt að þeir finna því allt til foráttu. Það er auðvitað fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að fólk hafi um þetta mismunandi skoðanir.

Hallfríður Þórarinsdóttir mannfræðingur flutti í Norræna húsinu erindi um mál valdsins og vald málsins í fyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands í janúar á síðasta ári. Þar var m.a. fjallað um mannanafnanefnd, lögin um mannanöfn og með dálítið sögulegan bakgrunn og langar mig að víkja aðeins að þeim þáttum. Einnig vil ég gera grein fyrir nokkrum af þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram í bréfum sem mér hafa borist eftir að þetta frumvarp var lagt fram og í lokin mun ég nefna nokkur dæmi um nöfn, bæði um nöfn sem hefur verið hafnað og sem hafa verið leyfð.

En fyrst úr erindi Hallfríðar Þórarinsdóttur, með leyfi forseta:

„Í fyrrnefndu bréfi til Morgunblaðsins fimmtudaginn 20. janúar 2005 sem bar yfirskriftina „Geðþóttaákvarðanir“ eða mannréttindabrot? er bréfritari, Guðborg Auður Guðjónsdóttir, ósátt við að mannanafnanefnd hafi hafnað nafninu Annalísa í einu nafni sem hún og eiginmaður hennar höfðu valið á dóttur sína. Nafnið uppfyllti ekki skilyrði. Hún spyr hvort foreldrum sé ekki treystandi fyrir því að gefa börnum sínum nafn. Hún velti líka fyrir sér hvernig valið er í mannanafnanefndina, hver tilgangurinn sé með lögunum og hvort þau standist fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.

Skemmst er að minnast þess að Þorgeir heitinn Þorgeirson rithöfundur stóð í áralöngu stappi við yfirvöld um fá að fella niður eignarfalls-ess í föðurnafni sínu. Eftir nær sjö ára þóf í kerfinu fékk Þorgeir loks boðsent bréf frá sjálfum forsætisráðherra, daginn fyrir þingkosningar vorið 1999, þar sem honum var heimilað að fella essið niður. Forsendu þess að hann hafnaði eignarfallinu í kenninafni sínu byggði Þorgeir á því að samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna væru börn ekki eign foreldra sinna.

„Persónulega hef ég fengið aftur full réttindi,“ sagði Þorgeir í samtali við Morgunblaðið, 19. maí 1999. „En hitt er annað mál að þeir vankantar á kerfinu og það miðaldafyrirkomulag, sem er í kringum þessi mannanafnalög í vörslu þjóðskrár, er óleyst eftir sem áður. Hagstofan hefur ekki bara ráðuneytisvald, hún hefur kansellívald eins og var hérna í konungsríki. Hún setur lög, ákveður hegningar og framfylgir þeim.““

Þorgeir fékk síðan nafni sínu breytt í þjóðskrá 6. maí 1999, talsverðu eftir að lögum um mannanöfn var síðast breytt af hv. Alþingi.

„Þorgeir sagði að þjóðin væri nánast þrautpínd undir þessum lögum um einkamál sín án þess að aðhafast. „Þetta er hinn sanni hundatamningaskóli, sem allir eru aldir upp við, og þeir, sem hafa farið af stað hafa flestir gefist upp af því að það er svo erfitt við það að eiga,“ sagði hann. „Þetta er absolútt vald, sem þessi stofnun hefur.“ Lög um mannanöfn, þar sem einum er leyft það sem öðrum er bannað eru lifandi dæmi um bæði það sem Bourdieu kallar „táknrænt vald“ og „táknrænt kapítal“ jafnframt því að vera ákaflega skýrt dæmi um vettvang átaka á tilteknu sviði innan menningarinnar.“

Í þessum fyrirlestri var einnig fjallað um sögulegan bakgrunn nefndarinnar sem slíkrar og dregið sérstaklega fram, sem hefur svo sem verið gert áður á opinberum vettvangi og líka í tengslum við þetta frumvarp, að fátt sé persónulegra en nafnið manns og fáir munu draga í efa vægi nafns í sjálfsímynd sérhverrar manneskju, nafnið sé því samofið persónu hennar. Það er mismunandi frá einu ríki til annars hvort sett eru lög og reglur um nafngiftir en hér á landi er val á mannanöfnum háð lagalegum stuðningi yfirvalda og hluti af opinberri málstefnu og hefur mönnum þess vegna sýnst sitt hvað um þá tillögu.

Sama gildir um breytingar á nafni manns, þær eru líka háðar lögum og samþykki yfirvalda og verður einstaklingur að vera orðinn lögráða til að breyta nafni sínu. Breytingar, hvort heldur á eiginnafni, millinafni eða kenninafni, eru aðeins leyfðar einu sinni nema í algjörum undantekningartilfellum. Og eins og alkunna er verður nafn að vera á mannanafnalista til að fá skráningu í þjóðskrá. Sé nafnið ekki á listanum vísar þjóðskrá málinu til mannanafnanefndar. Nefndin er skipuð af dóms- og kirkjumálaráðuneyti og fer m.a. með lögformlegt vald til að samþykkja eða synja beiðnum um íslensk mannanöfn. Nefndin skal samkvæmt lögum semja skrá um eiginnöfn og millinöfn, svokallaða mannanafnaskrá. Þessa skrá ber nefndinni að endurskoða eftir þörfum og gefa út í heild ekki sjaldnar en á þriggja ára fresti.

Í nefndinni sitja þrír fulltrúar, einn er skipaður að fenginni tillögu heimspekideildar Háskóla Íslands, einn er skipaður að fenginni tillögu lagadeildar háskólans, einn er skipaður að fenginni tillögu Íslenskrar málnefndar. Nefndin samþykkir eða synjar eins og áður sagði beiðnum um íslensk mannanöfn séu þau ekki þegar á skrá. Úrskurðum mannanafnanefndar er ekki unnt að skjóta til æðra dómsvalds. Í nafnalögum er kveðið á um dagsektir að upphæð 1.000 kr. hafi barni ekki verið gefið nafn sem tilheyrir nafnaskrá. Nefndin skal birta niðurstöður úrskurða sinna árlega.

Í fyrirlestri sínum benti mannfræðingurinn sömuleiðis á að annars staðar, t.d. eins og í Bretlandi og Bandaríkjunum, séu nafngiftir ekki háðar lagasetningum. Sú hefð byggi á fordæmisrétti eða Common Law og eigi uppruna sinn í Englandi. Íslensk mannanafnalög byggi hins vegar að sumu leyti á gömlum hefðum meðan aðrir þættir þeirra eigi sér ekki eins djúpar rætur. Til dæmis sé föðurnafnahefðin ævagömul og vegna hennar hefur það ekki tíðkast eins og víða annars staðar að konur skipti um nafn við giftingu.

Það er líka kunnara en frá þurfi að segja að nafngiftir og nafnahefðir eru mismunandi frá einu tungumáli til annars, einni menningu til annarrar og vissulega frá einu tímaskeiði til annars. Svo má bæta því við að það sem einum finnst smekklegt finnst öðrum ósmekklegt og um það eru fjölmörg dæmi sem ég mun kannski fara betur yfir hér á eftir.

Með þessari samantekt á erindi mannfræðingsins, sem var miklu lengra og ítarlegra og heilmiklar umræður sem spunnust um það, vildi ég aðeins geta þess að það er búið að deila um þetta mál árum og jafnvel áratugum saman. Það var sérstaklega fróðlegt að lesa þær þingræður sem haldnar voru bæði hér 1996 þegar lögum var breytt, 1991 held ég að það hafi verið þar áður, og kemur í ljós að þingmenn höfðu á þessu mjög miklar skoðanir og sömuleiðis hefur sá sem hér stendur átt samtöl við fjölmarga presta á undanförnum dögum og vikum sem kannski hafa sérstaklega sterka skoðun á þessu máli, hafa skotið nöfnum og nafnhugmyndum til mannanafnanefndar. Sumir þeirra eru mjög hrifnir af þessari hugmynd, m.a. séra Baldur Kristjánsson í Þorlákshöfn, sem fagnaði þessu frumvarpi sérstaklega á vef sínum í gær, eins og getið hefur verið um í fjölmiðlum. Baldur var áður biskupsritari og ætti að vita sitthvað um þessa hefð og hlutverk mannanafnanefndar.

Hæstv. forseti. Ég vísaði til þess áðan að ég hefði fengið ýmis erindi eftir að þetta frumvarp kom til sögunnar og langar mig til að lesa hér upp úr þremur þeirra. Það er að sjálfsögðu ekki tæmandi en gefur ákveðna mynd. Tvö þeirra eru í sjálfu sér sammála frumvarpinu og það þriðja reyndar líka en það tekur til þáttar sem reyndar er ekki í þessu frumvarpi og fjallar um ættarnöfn sem eru bönnuð, þ.e. að samkvæmt íslenskum lögum er bannað taka upp ný ættarnöfn, og ekki er tekið á í þessu frumvarpi. Mér fannst erindið í sjálfu sér það athyglisvert að ég taldi að það ætti heima í þessari umræðu. Ég tek fram að óskað hefur verið eftir leyfi frá þessum bréfriturum til að birta þetta opinberlega þannig að það er ekki gert í óþökk þeirra. Með leyfi forseta, þá er hér bréf frá Ingu Rós Antoníusdóttur þar sem segir:

„Þú auglýsir á bloggi þínu eftir skoðunum á afnámi mannanafnanefndar og verð ég endilega að tjá mig. Endilega afnemið þessa „merku stofnun“ og treystið fólki til þess að velja nöfn á börnin sín. Fá, ef nokkur, haldbær rök virðast mæla með tilvist mannanafnanefndar. Fólk velur þau nöfn á börn sín sem þeim þykir falleg. Aldrei hef ég heyrt um neinn sem hefur valið nafn, sem öðrum þykir kannski ljótt, af einskærri illkvittni. Börn verða ekkert frekar lögð í einelti út af nöfnum sínum en öðru. Nafnahefð er hvort sem er að breytast. Fólk er ekki lengur haldið jafnmikilli áráttu og áður fyrr til þess að skíra eftir eða í höfuðið á ættingjum eða vinum. Hlutfall innflytjenda hefur aukist til muna og með þeim hefur nafnaflóran breyst auk þess sem íslenskun á erlendum nöfnum hefur verið vinsæl undanfarin ár.

Ekki má svo gleyma því að nöfn sem mörgum þykja nýstárleg og útlenskuleg eru gömul og gild nöfn í íslenskum nafnaskrám á meðan nöfn sem þykja hefðbundin íslensk nöfn eru kannski frekar ný af nálinni. Get ég nefnt dæmi um tvö nöfn barna minna, Antoníus og Hrafnhildur. Antoníus þykir mörgum skrýtið og útlent og spyrja jafnvel hvort barnið hafi fengið það nafn bara til að vera öðruvísi. Fólki þykir nafnið Hrafnhildur hins vegar gamalt og gott íslenskt nafn. Staðreyndin er sú að Antoníus hefur verið til í margar aldir á Íslandi á meðan Hrafnhildur er frá fyrri hluta síðustu aldar.

Ef leyfilegt er að skíra Vísa Skuld, Ljótur Ormur, Hreinn Bolli o.s.frv. samkvæmt mannanafnanefnd þá geta nöfnin sem foreldrar vilja gefa börnum sínum varla verið verri.

Kveðja, Inga Rós Antoníusdóttir.“

Annað erindi er frá Björk Eiðsdóttur sem býr í Bandaríkjunum. Hún segir, með leyfi forseta:

„Komdu sæll, Björn Ingi. Eftir að hafa kynnt mér frumvarp þitt og fleira varðandi aflagningu mannanafnanefndar og einnig hlýtt á viðtal við þig í Reykjavík síðdegis fann ég mig knúna til að senda þér línu til að lýsa yfir ánægju minni yfir því að þið skulið vekja athygli á þessu máli. Ég er móðir 9 ára stúlku sem heitir Blær, reyndar í þjóðskrá heitir hún enn bara Stúlka. En hún var skírð í góðri trú um að ekkert athugavert væri við nafnið, enda hafði ég fengið hugmyndina að því úr Brekkukotsannál Halldórs Laxness en þar er það einmitt kvenmannsnafn. Presturinn gerði enga athugasemd við nafnið þegar ég ræddi við hann fyrir athöfnina og heyrðust fyrst einhverjar athugasemdir rúmri viku eftir að stúlkan var skírð. Sagðist prestur þá hafa gert mistök og bauð okkur að velja annað nafn. Það segir sig væntanlega sjálft að það hvarflaði ekki að okkur að breyta nafninu.

Málið fór fyrir þáverandi mannanafnanefnd sem um leið hafnaði beiðninni á grundvelli þess að nafnið hefði verið skráð sem karlmannsnafn og ekki mættu kvenmaður og karlmaður bera sama eiginnafn. Nú spyr ég mig hvers vegna Blær var skráð sem karlmannsnafn þegar stúlka bar það ein manna í þjóðskrá á þeim tíma. Rök nefndarinnar voru þau að nafnorðið blær væri karlkyns en þá má segja á móti að nafnorðin auður og ilmur séu karlkyns meðan nöfnin eru kvenkyns. Sérstök beyging fylgir kvenmannsnafninu Blær, Blæ, Blævi, Blævar, og því auðheyrt hvort um er að ræða kvenmann eða karlmann.

Áður en að skírninni kom hafði ég samband við málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins til að fullvissa mig um rétta beygingu nafnsins. Ekki stóð á svörunum þar en þó er nafnið ómögulegt í eyrum mannanafnanefndar. Mín samskipti við þáverandi mannanafnanefnd voru heldur betur endaslepp. Þegar ég ræddi við fyrrverandi formann voru svörin hans á þá leið hvort ég vildi ekki bara skíra dóttur mína Guðmund þar sem ég væri svona hrifin af karlmannsnöfnum. Þegar ég svo útskýrði að presturinn hefði aldrei tjáð mér að nafnið væri ekki á skrá og hvort ekki væri hægt að leysa málið einhvern veginn fyrst svo væri komið, barnið skírt o.s.frv., svaraði hann með því að spyrja mig hvort ég vildi ekki bara aka yfir á rauðu ljósi og spyrja svo lögregluþjóninn hvort hann væri ekki til í að beygja lögin aðeins þar sem þetta væri búið og gert. Þegar ég svo minntist á að stúlka á þrítugsaldri héti þessu nafni á undan nokkrum dreng svaraði hann því að þó að mistök hafi verið gerð fyrir einhverjum árum væri ekki ástæða til að endurtaka þau.

Finnst mér heldur hart að foreldri, sem lætur skíra barn sitt í góðri trú án þess að nokkur hafi bent því á að ráðfæra sig við einn eða neinn varðandi nafngiftina, fái slík svör. Ekki er hægt að skjóta úrskurði mannanafnanefndar fyrir neinn æðri dómstól og hef ég reynt að fá áheyrn fyrrverandi forsætis- og dómsmálaráðherra auk biskups en talað fyrir daufum eyrum þar sem þessi nefnd virðist vera alvöld til að ákveða hvað dóttir mín megi heita eða ekki heita.

Því fagna ég að þið skulið hafa sýnt þessu máli áhuga því að a.m.k. í tilfelli dóttur minnar er einungis um smekksmál að ræða og hefði önnur nefnd auðveldlega getað komist að annarri niðurstöðu. Það er einfaldlega mannréttindamál að fá að ráða nafni barns síns sjálfur án geðþóttaákvarðana aðila settra nefnda.

Með kveðju og von um gott gengi frumvarpsins.

Björk Eiðsdóttir, Pepper Tree Inn í Montgomery í Bandaríkjunum.“

Þar kemur kannski skýringin á því af hverju dóttir hennar heitir enn þá Blær án þess að það sé viðurkennt í þjóðskrá, hún býr sem sé erlendis. Það er væntanlega ein leið til þess að komast hjá því.

Þriðja erindið, með leyfi forseta, kemur frá Aðalsteini Leifssyni, lektor í Háskólanum í Reykjavík, og það snýr að ættarnöfnum:

„Sæll, Björn Ingi. Konan mín og ég höfum búið töluvert í útlöndum og við eigum eitt barn sem fæddist á Íslandi, annað í Noregi og hið þriðja í Belgíu. Nýlega þegar við áttum leið um erlendan flugvöll með börnin vorum við hjónin stöðvuð þrisvar sinnum, vegabréfin grandskoðuð og tvisvar flett upp í gagnagrunni. Ástæðan var sú að ég hef eitt eftirnafn, Leifsson, konan mín annað, Jónsdóttir, stúlkurnar hið þriðja, Aðalsteinsdóttir, og drengurinn fjórða, Aðalsteinsson. Hvers vegna voru karl og kona, ógift, að ferðast með þrjú börn sem ekki eru skyld þeim? Eftirlitsfólkinu fannst þetta grunsamlegt og miðað við fréttir af barnaránum er erfitt að agnúast út í þetta ágæta fólk sem er að sinna starfi sínu. Ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem ég hef þurft að útskýra íslenskt nafnakerfi fyrir útlendingum, erfiðast á ég með að útskýra af hverju sumir mega nota eftirnöfn (afkomendur aðalsins, sem þá var og hét,) og útlendingar mega halda sínum eftirnöfnum en öllum öðrum er bannað með lögum að nota eða taka upp eftirnafn, sbr. 8. gr. laga um mannanöfn. Þetta ákvæði setur óþolandi takmörk á frelsi meginþorra Íslendinga meðan lítill hópur fólks nýtur þeirra forréttinda að geta valið um það hvort nota eigi ættarnöfn eða ekki.“

Aðalsteinn segir í bréfi sínu að sér þætti eðlilegt og skynsamlegt að afnema þetta ákvæði og gefa fólki frelsi til að taka upp ættarnöfn ef það óskar þess.

„Ef fólk er sátt við það og vill halda í það mannanafnakerfi sem fyrir er þá gerir fólk það. Þeir sem það vilja, til að mynda vegna þess að þeir eru búsettir í útlöndum að miklu leyti, geta þá tekið upp ættarnafn sem kemur í stað nafns föður/móður sem kenninafn eða sem kemur til viðbótar við það. Það er hins vegar óþolandi ástand að meginþorra fólks skuli vera bannað að taka upp ættarnafn á meðan aðrar reglur gilda um afkomendur gamla aðalsins“ — eins og Aðalsteinn segir — „og fólk frá útlöndum sem kýs að taka íslenskt ríkisfang. Í umræðum í framtíðinni máttu gjarnan bæta frelsi til þess að velja sér kenninöfn við tillögu um frelsi fólks til þess að velja sér eiginnöfn.“

Mannanafnanefnd hefur auðvitað gert ýmislegt þarft, ég skal alveg viðurkenna það, og hafnað nöfnum sem mörgum finnst kannski ekki passa. Þó eru fjölmörg dæmi um nöfn sem hefur verið hafnað, þar sem skýtur skökku við, og í útvarpsþætti einum í vikunni ræddi ég einmitt við Baldur Sigurðsson, nefndarmann í nefndinni, og þá viðurkenndi hann reyndar að t.d. þetta dæmi um nafnið Blær væri kannski ágætt dæmi um smekk sem gæti valdið sárindum. Ég þekki annan mann sem heitir Jakob Bjarnar og starfar sem blaðamaður. Hann hefur komist að því sér til undrunar að millinafnið Bjarnar hefur verið bannað. Það er ósköp erfitt að útskýra það fyrir fólki sem heitir þessum nöfnum. Sömuleiðis er nýbúið að banna millinafnið Múli, en það vill svo til að það er líklega eitt þekktasta millinafn í íslenskri tungu og tilheyrir frægum útvarpsmanni.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, hæstv. forseti. Ég gæti gert það, ég er hér með heilmiklar heimildir, bréf og dæmi úr umræðum á þingi á sínum tíma, en ég hef skilning á því að fleiri vilji komast að. Ég þakka fyrir að fá þetta tækifæri til að mæla fyrir þessu frumvarpi á hv. Alþingi, og legg auðvitað til að það verði samþykkt, en vísa því til hv. allsherjarnefndar sem væntanlega fær slík mál til meðferðar.