133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

mannanöfn.

339. mál
[17:55]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka flutningsmanni þessa þingmáls, hv. þm. Birni Inga Hrafnssyni, fyrir að vekja máls á því að tími er kominn til að Alþingi skoði á ný lög um mannanöfn. Ég verð að viðurkenna að ég hef hugleitt þetta frá því að ég kom á þingið, sem er ekkert óskaplega langt síðan, og kannski ímyndað mér að sá ráðherra sem þetta heyrir undir, hæstv. dómsmálaráðherra, mundi annast þessa endurskoðun eða hefja máls á henni vegna þeirra tíðinda sem orðið hafa í tíð hans sem ráðherra.

Það gerðist m.a. að mannanafnanefnd sagði af sér fyrir nokkrum árum vegna afskipta ráðuneytisins af störfum hennar og ný tók við sem tók upp aðeins aðra stefnu að því er ég held. Ég hef þó ekki lagst ofan í það. Síðan hafa verið, eins og flutningsmaður benti réttilega á, ýmsar fréttir af mannanafnanefnd og mannanafnalögum og heyrst ýmiss konar gagnrýni sem, eins og eðlilegt er, hefur beinst að einstökum ákvörðunum nefndarinnar en síður komist á þann stað að fjalla um mannanafnalögin sjálf.

Þar þarf að taka ýmsa þætti inn í. Eins og nefnt hefur verið er auðvitað sjálfsagt að foreldrar ráði nöfnum barna sinna. Það er sú venja sem við höfum úr grárri forneskju þegar um foreldra er að ræða. Líka hefur verið talin ástæða til þess síðan lög voru sett í nútímasamfélagi að samfélagið, samkvæmt þeirri reglu að það þurfi þorp til að ala upp barn, geti gripið inn í slíka nafngjöf ef ami er að eða hætt við að barnið standi ekki undir nafni með einhverjum hætti.

Hér á Íslandi, og ég hygg víðar án þess að geta mjög vandlega skýrt frá því, hefur líka verið talið að nafnaforðinn væri partur af menningu landsins og að samfélaginu væri rétt og skylt að vernda hann og þróa með nokkrum hætti til þess að ekki yrðu kollsteypur í nafnvenjum sem rýrðu menningarlegt gildi nafnaforðans. Öll þessi sjónarmið hygg ég að eigi rétt á sér. Síðan er auðvitað spurning hvernig menn vilja fara að, hvort menn vilja hafa í svolítið gömlum stíl strangar reglur um nafngjöf eða hvort menn vilja beita fræðslu, og áróðri jafnvel, í þessu máli.

Þetta er löng saga og ég ætla ekki að ræða hana hér, bæði nafnasagan sjálf — við erum svo heppin að hafa hér innan húss annan af tveimur höfundum fræðirits um þetta efni, Sigurð Jónsson frá Arnarvatni. Hann gaf ásamt Guðrúnu Kvaran út bókina Íslensk nöfn fyrir svona 10 árum. Við gætum spurt hann. Hann getur því miður ekki komið í stólinn en er fróður um þetta — og síðan er auðvitað saga þessara nafnalaga nokkuð löng líka og mikið hefur verið rifist um nöfn hér á þinginu.

Ég frétti af því að hv. þm. Björn Ingi Hrafnsson ætlaði að bera fram þetta mál og var spenntur að sjá það. Ég verð að vísu að viðurkenna að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum þegar ég sá málið sjálft vegna þess sem flutningsmaður hefur sagt um málið í fjölmiðlum — málið hefur vakið athygli fjölmiðla sem von er og ég óska þingmanninum til hamingju með að hafa fengið þá fjölmiðlaathygli sem raun ber vitni — og þess sem hann sagði hér t.d. í ræðustólnum, en þessa sér ekki stað í frumvarpinu. Frumvarp þingmannsins er þannig að í öllum greinum gengur það út á að leggja niður mannanafnanefnd, fela vald hennar dómsmálaráðherra og fleygja þeirri mannanafnaskrá sem henni var falið að koma upp og varðveita.

Ef Alþingi samþykkti þetta frumvarp óbreytt stæðu eftir reglur 1. gr. laganna um fjölda nafna sem leyfilegt er að bera og um gerð þeirra nafna sem menn geta borið á Íslandi og ákvæði 8. gr. um bann við ættarnöfnum.

Einmitt ættarnöfnin hafa valdið miklum deilum á landinu. Ef ég man rétt fjallaði verulegur hluti fyrirlestrar Hallfríðar Þórarinsdóttur um mál og vald einmitt um ættarnöfnin. Ég var henni að vísu ekki sammála í þeirri röksemdafærslu sem hún var með þar en virði þó bæði fræði hennar og skoðanir. Ég tel að þær hafi auðgað umræðuna um íslenskt mál og íslenska menningu hér á undanförnum árum.

Ég er hins vegar kominn að þeirri niðurstöðu sjálfur í þessum ættarnafnamálum að núverandi ástand sé ekki gott, það sé ekki við það unandi að sumir megi bera hin gömlu ættarnöfn sín og síðan þeir Íslendingar sem bætast við þjóðina en aðrir geti ekki haft ættarnöfn. Ég tel að við eigum að leggja niður þetta bann við ættarnöfnum og láta á það reyna hreinlega hvernig menn taka því. Ef gamla kenninafnakerfið tapar þeirri orrustu þá verður að hafa það. Ég hef enga trú á því að það geri það vegna þess að ég held að þjóðin sé í heildina stolt af kenninöfnum sínum og ég tek eftir að margir þeir sem ættarnöfn bera nota kenninafnið jafnframt.

Forseti. Um þetta er hins vegar ekkert fjallað í frumvarpinu. Gömlu ákvæðin í 8. gr. um ættarnöfnin, að sumir megi bera þau og aðrir ekki, standa eftir. Hið sama er líka að segja um skilyrði þau sem nafn þarf að sæta til að íslenskur maður megi bera það. Því er ekki breytt í þessu frumvarpi. Það nafn skal taka íslenska eignarfallsendingu. Það skal hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Það skal samræmast íslensku málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls.

Vegna þess að hér var rætt um nafnið Blær — og ég kem líka örlítið við þá sögu sem móðurbróðir stúlku sem kallar sig Þuríði Blæ en er þó aðeins skráð Þuríður — er um það að segja að frumvarp hv. þingmanns bjargar hvorki ætt minni né konunnar sem skrifaði frá Ameríku í þessu máli. Eftir stendur það ákvæði að stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn sem er það ákvæði sem mannanafnanefndin studdi sig við í þessu efni og hefur haldið fram æ síðan að gildi um þetta nafn. Ég er að vísu ekki sammála því vegna þess að ég tel að hér sé sjálfsögð sú túlkun að um tvö nöfn sé að ræða með sameiginlega nefnifallsmynd. En hv. þingmaður kemur okkur ekkert til hjálpar í þessu efni.

Hið sama er að segja um millinöfn og önnur ákvæði frumvarpsins, kenninöfn og nafnrétt manna af erlendum uppruna. Allt stendur þetta, og mannanafnalögin breytast í raun og veru ekki nema að því einu leyti að hlutverk mannanafnanefndar er falið dómsmálaráðherra. Það má vekja athygli á því að sá galli sem menn hafa kallað hér mannréttindabrot, að ekki sé hægt að áfrýja úrskurði mannanafnanefndar, stendur eftir. Það er bara dómsmálaráðherra sem á að taka þá ákvörðun sem mannanafnanefnd tekur nú, og þeim úrskurði sem dómsmálaráðherra fellir í þessu efni yrði ekki hægt að áfrýja.

Þetta þykir mér miður vegna þess að rökstuðningur og málflutningur hv. þingmanns um þetta frumvarp sitt passar ekki við frumvarpið sjálft. Ég veit ekki hverju gegnir en það er svo. Síðan er á það að líta hvernig þetta muni verða ef frumvarpið verður samþykkt.

Þá sýnist mér, forseti, að þetta muni verða þannig að dómsmálaráðherra þarf, á sama hátt og mannanafnanefnd nú, að fylgja ákvæðum laga. Til þess eru lög að þeim sé fylgt og ég geri ekki ráð fyrir því að flutningsmaður vilji kasta lögunum því að hann leggur til að þau séu óbreytt áfram í meginatriðum. Dómsmálaráðherra þarf þess vegna að úrskurða um vafatilvik í þessu dæmi. Hann þarf að vísu að gera það án þess að hafa mannanafnaskrá við höndina en hann verður að líta á t.d. eignarfallsendingar, á hefðina, málkerfið og ritreglurnar. Hann verður að skoða hvað nöfnin eru mörg. Hann verður að skoða í hvaða formi þau eru, hvernig ættarnafnið lítur út og hvernig millinafnið er. Hann verður að hlíta í úrskurðum sínum því banni við nýjum ættarnöfnum sem hér er tiltekið í lögunum og ég tel m.a. að við ættum að breyta.

Dómsmálaráðherra þarf sem sé að gera allt það sem mannanafnanefndin gerir nú. Það er eðlilegt að álykta, af því að dómsmálaráðherrar eru yfirleitt engir asnar, hvað sem um þá má segja að öðru leyti, að dómsmálaráðherra muni ekki gera þetta að eins konar tómstundagamni á kvöldin heima hjá sér, heldur muni hann setja þetta starf á einhverja af skrifstofum ráðuneytisins, fela það ákveðnum mönnum. Vegna þess að hin faglega hæfni á þessu sviði er takmörkuð í dómsmálaráðuneytinu er eðlilegt að hann komi sér upp einhvers konar hópi manna, annaðhvort í ráðuneytinu eða í tengslum við ráðuneytið eða jafnvel kaupi þá vinnu af einhverjum, segjum hinni nýju Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, til þess að fella þessa úrskurði fyrir sig, til að gera tillögu til sín um það hvernig þessir úrskurðir eiga að vera.

Slík nefnd mundi væntanlega koma sér fljótlega upp skrá um mannanöfn þó að hún væri ekki opinber eða lögfest til þess að miða við. Væntanlega mundi dómsmálaráðuneytið birta þá skrá mönnum til leiðbeiningar á heimasíðu sinni og láta hana liggja frammi í ráðuneytinu. Þegar upp yrði staðið yrði þetta þannig að til yrði ný mannanafnanefnd með nýrri mannanafnaskrá og ekkert hefði breyst nema það að dómsmálaráðherra mundi þurfa að taka að sér hina sáru úrskurði og viðkvæmu sem mannanafnanefnd þó annast nú.

Ég verð að segja það, forseti, að mér kemur þetta svolítið á óvart vegna þess að ég tel ástæðu til breytinga á þessum lögum. Ég hef heyrt í mönnum í mannanafnanefnd rétt eins og hv. flutningsmaður. Þeir segja það, bæði fyrr og síðar, að lögin séu að vísu mjög rökleg en það sé ekki þægilegt að vinna eftir þeim, þar komi lítið mat til greina og þær ákvarðanir sem mönnum hafa þótt hlálegastar séu beint runnar undan rifjum laganna sjálfra.

Við getum haldið okkur við dæmið um Múla, eða myndina Múli sem ekki er tekin sem millinafn. Amast hefur verið við þessu nafni vegna þess að það uppfyllir ekki þau ákvæði laganna — ekki mannanafnanefndar — sem alþingismenn settu hér að millinafn skuli ekki hafa nefnifallsendingu. Það er bannað í lögunum að þau hafi nefnifallsendingu. Af hverju? Ég veit það ekki. Við skulum leita til 1996 eða 1991 til að athuga það. En það eru lögin sem segja það.

Það eru líka lögin sem tiltaka ákveðna hefð. Mannanafnanefndin hefur túlkað þá hefð. Við getum verið ósammála eða sammála þeirri túlkun en henni er falið að túlka þá hefð og setja þá hefð niður í reglur. Það eru líka lögin sem ákvarða, eðlilega, að nafn skuli samræmast málkerfinu og hefðum og venjum í réttritun. Dómsmálaráðherra eða mannanafnanefnd hans mundi halda áfram að búa sér til einhverja viðmiðun, annaðhvort þá sömu og mannanafnanefndin núna hefur eða þá einhverja aðra, um öll þessi atriði.

Ég hef ekki ráðrúm eða tíma til að fara í gegnum það hvað mér fyndist heppilegast í þessu og kannski er ekki æskilegt að einstakir þingmenn tjái sig um það því að þetta er mál sem — og ég þakka hv. þingmanninum aftur fyrir að hafa vakið máls á því, vakið það upp hér í þinginu — þarf góða yfirferð þar sem tekið er tillit til allra sjónarmiða og skoðaðar allar lausnir, allt frá smávægilegum breytingum á núverandi lögum til þeirrar lausnar sem djarft væri að koma fram með í þinginu, sem væri sú að gefa þetta algjörlega frjálst, afnema lögin um mannanöfn og hafa þá þær einar reglur í gildi sem Þjóðskráin mundi væntanlega setja sér, sennilega þannig að íslenskt mannsnafn yrði að vera ekki meira en 200 stafir með bilum. Það gæti að öðru leyti litið út eins og hver einn vildi nema það væri notað latínuletur, hugsanlega að viðbættum tölustöfum. Það er allt hugsanlegt í þessu. Hið algjörlega frelsi væri sem sé þetta.

Enginn hefur orðið svo djarfur að halda því fram hér en það er eitt af því sem við ættum að skoða hreinlega, hvort það er það sem við viljum. Þá mundum við gera það sem flutningsmaður vill, færa foreldrum og síðar nafnhöfum hið fullkomna frelsi til að nota þau nöfn sem hver vill.

Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég er, eins og hefur komið fram, þeirrar skoðunar að það eigi að færa þetta í frjálsræðisátt að einhverju leyti, eða losa um hömlur skulum við segja til þess að vera ekki með mjög gildishlaðin orð, m.a. í ættarnöfnunum. Ég tel líka að reglur um form nafna séu nú þegar það rúmar að einhver viðmiðun í því eða einhver mörk eða landamæri um millinafn og þess háttar séu kannski óþörf.

Ég held mig hins vegar við að það sé skynsamlegt — ég áskil mér rétt til að skipta um skoðun í því — að þessar þrjár reglur séu hafðar í heiðri, í fyrsta lagi sú að foreldrar ráði að sjálfsögðu nöfnum barna sinna, eða þeir aðrir sem teljast vera hæfilegir nafngjafar, þó þannig að börnin geti breytt þeim síðar á ævinni, í öðru lagi að samfélagið gangist við þeirri skyldu að annast tiltekna barnavernd líka í þessu efni og í þriðja lagi það að nöfn falli að málkerfi og réttritun þess tungumáls sem við tölum hér í landinu, er mál málanna, er að minnsta kosti fyrsta málið af nokkrum sem hér eru töluð og það mál sem hér á að vera opinbert.

Að lokum, ég fagna því enn einu sinni að þetta mál skuli koma upp og heiti því að halda því hér heitu með einhverjum hætti. Ég varð þó fyrir vonbrigðum með það frumvarp sem fyrir liggur.