133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

mannanöfn.

339. mál
[18:19]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég satt að segja get ekki tekið undir þau orð hv. þingmanns að við séum að einhverju leyti sammála í þessu efni. Ég skoðaði málið sem lagt er fram á þinginu til samþykktar eða synjunar, eða svefns í nefnd sem er kannski algengast en formlega er það með hinu mótinu. Ég get ekki lesið neina þá skoðun út úr þessu frumvarpi sem ég sé sammála eða ósammála. Af frumvarpinu virðist flutningsmaður sammála því að eiginnafn eigi að líta út á ákveðinn hátt og taka íslenska eignarfallsendingu, hafi unnið sér hefð í íslensku máli, skuli standast málkerfið og vera ritað í samræmi við ritreglur.

En það er mjög eðlilegt þegar hver sem um þetta vélar, hvort það er mannanafnanefnd, lögformleg eða dómsmálaráðherra, gæti samræmis. Það er skylda í stjórnsýslunni að gæta samræmis og taka mark á því að menn séu jafnréttháir frammi fyrir lögunum. Ég hef ekki enn þá skilið hvað flutningsmanni gengur til með því að leggja niður mannanafnanefnd nema að því leyti að svona nefndir eru frekar óvinsælar nú á tímum.

Ég sé ekki betur en að mannanafnanefnd vinni nákvæmlega eftir þeim reglum sem henni eru settar í lögunum eins og þau eru núna. En ég hef vakið athygli á því að ef þessi nefnd gerði það ekki þyrfti dómsmálaráðherra væntanlega, nema þar sé um að ræða þeim mun meiri kraftamann, að koma þessu verki fyrir í dómsmálaráðuneytinu eða óformlegri mannanafnanefnd úti í bæ.