133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

mannanöfn.

339. mál
[18:25]
Hlusta

Flm. (Björn Ingi Hrafnsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og ýmsar gagnlegar ábendingar sem komið hafa fram. Ég held mig þó við þá skoðun að megintilgangurinn sé nokkuð skýr. Sé það vilji hv. þingmanns að afnema t.d. þessa tilteknu grein með öllu og nöfn geti komið hér inn í málið án þess að taka þá mið af venjum og hefðum í íslenskri tungu þá yrðu það heilmikil tíðindi fyrir mig. Ég hef lengi fylgst með störfum hv. þingmanns á akri hinnar íslensku tungu og tekið mark á fjölmörgum pistlum sem hann hefur skrifað um þá hluti. Þegar ég var að velta þessu máli fyrir mér í gær og undirbúa mig fyrir þennan ræðuflutning þá las ég t.d. bók eftir hann sem ég held að heiti Málkrókar, sem mér fannst til marks um mann sem ann tungu sinni.

En hann kemur úr óvæntri átt og er greinilega talsmaður mun meiri frelsis en ég hefði látið mér detta í hug. Ég fagna því og það segir mér að menn eru ekki bundnir í fjötra kennisetninga í þessum efnum.

Ég ítreka hins vegar það sem ég sagði áður, að ef þetta frumvarp, þótt einhverjum kunni að finnast það gallað í einhverjum greinum, getur orðið til þess að lögum um mannanöfn verði breytt, hvort sem það felur í sér að ættarnöfnin verði tekin upp aftur eða ekki, þá tel ég að til mikils hafi verið barist.

Ég ítreka að löng og rík hefð er fyrir því í sölum hv. Alþingis að mál taki einhverjum breytingum í þinglegri meðferð, hvort sem þær eru stórar eða litlar. Ég vænti mikils af störfum hv. allsherjarnefndar.