133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

virðisaukaskattur.

338. mál
[18:41]
Hlusta

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Það er rétt, virðulegur forseti, að auðvitað er það ríkissjóður og sá fagráðherra, fjármálaráðherra, sem með hann fer sem um málið fjallar endanlega. Í málflutningnum með þessu litla frumvarpi sem er svo einfalt í smíðum er upplýst að á undanförnum fimm árum hafa fyrirtæki greitt milli 240 og 250 millj. kr. í ríkissjóð í formi virðisaukaskatts af nýjum vögnum til þess að auka öryggi og bæta almenningssamgöngur, ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu heldur víðar um land. Hvergi í samgönguáætlun er tekið tillit til þeirra tekna og því er ekki nema sanngjarnt gagnvart sérstaklega jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, ef hún er höfð í huga, að þarna njóti almenningsfyrirtæki sömu skattaívilnunar og hópferðafyrirtæki með því að endurgreiða til fyrirtækjanna þessar 170 millj. sem ég áðan rakti. Það yrði áeiðanlega mjög mikil lyftistöng almenningssamgöngum í landinu öllu og viljayfirlýsing um það að ríkisvaldið meinti eitthvað með yfirlýsingum um að bæta bæði umferðarmál og loftslagsskilyrði, ekki bara í borginni hér hjá okkur, heldur í heiminum öllum með minnkandi útblæstri.