133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

virðisaukaskattur.

338. mál
[18:43]
Hlusta

Björn Ingi Hrafnsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Íslendingar eru hrifnir af einkabílnum sínum og ég held að það muni seint ganga að ná fram þeirri viðhorfsbreytingu hér á landi sem kannski er ríkjandi víða um lönd, að almenningssamgöngur komi í staðinn fyrir hinn svokallaða einkabílisma. Hins vegar held ég að það sé algjört lykilatriði hjá okkur að bjóða þær sem valkost, raunhæfan valkost, og reyna að ýta undir þær í ljósi m.a. þeirrar mengunar sem hv. þingmaður nefnir, aukins umferðarþunga sem blasir við öllum sem keyra um götur Reykjavíkur og margs konar annars þjóðfélagslegs ávinnings sem af því mundi leiða.

Ég vildi bara ítreka það sjónarmið að ég er hlynntur þessu og tel að af þessu þurfi að verða. Ég bendi á að rekstur almenningssamgangna er ekki eitt af lögbundnum hlutverkum sveitarfélaga þó að þau hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að veita þá þjónustu. Það er ekki nóg með það að ríkissjóður taki ekki þátt í þeim kostnaði, heldur hefur ríkissjóður umtalsverðar tekjur af rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Þá er farið að skjóta skökku við. Þegar um er að ræða stórar tölur eins og hv. þingmaður hefur nefnt með því að mæla fyrir þessu frumvarpi er augljóst að um er að ræða hreina blóðpeninga sem sveitarfélögin leggja til ríkisins vegna þess að þau greiða auðvitað mjög stórar upphæðir með þessum fyrirtækjum. Þau eru að sjálfsögðu ekki arðbær, því er nú verr og miður, og það munar mjög um þessa peninga.