133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[15:52]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta frumvarp til laga um breyting á lögum um Landsvirkjun, sem felur í sér að kaupa hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrar út og geta síðan stofnað nýtt fyrirtæki um Landsvirkjun, er náttúrlega liður í að setja Landsvirkjun á einkavæðingarvagninn eins og forustumenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafa áður lýst.

Annars er ekkert að sjá í frumvarpinu um tilgang málsins. Ég hef verið að lesa greinargerð og ég hef verið að lesa skýringar með frumvarpinu og það er hvergi tilgreindur neinn annar tilgangur, þjónustutilgangur, að ætla að bæta þjónustu við almenning. Nei. Ég spyr hæstv. ráðherra: Getur hæstv. ráðherra skýrt það eitthvað nánar en kemur fram í frumvarpinu, hver er tilgangurinn með því að flytja þetta frumvarp annar en sá að setja Landsvirkjun á einkavæðingarvagn raforkumálanna sem hefur reyndar verið stefna ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum?