133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[15:54]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er eitt sem ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á, þ.e. að hann talar um sameignarfélag. Mér vitanlega er Landsvirkjun sameignarfyrirtæki með sérlögum þannig að það er ekki hægt að vísa í einhver almenn lög um sameignarfélög. Það er ekki um það að ræða í þessu tilviki.

Ég skil orð hæstv. ráðherra þannig að þetta sé liður í því að liðka fyrir að setja Landsvirkjun og reyndar orkukerfið allt, Orkubú Vestfjarða og Rarik öll saman í eitt fyrirtæki til að hægt sé að setja það allt á einkavæðingarmarkað. Auðvitað er það sjónarmið af hálfu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins en ég er algerlega á móti því og spyr: Hvernig er hægt að heimfæra eitthvað af þessum aðgerðum þannig að þær þjóni almenningi betur, að þær gefi lægra raforkuverð eða betri þjónustu, sem hlýtur að vera markmið af hálfu ríkisstjórnarinnar?