133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[16:02]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því að mistökin sem voru gerð á sínum tíma þegar Reykjavíkurborg og Akureyrarbær voru gerð að sameigendum ríkisins að Landsvirkjun eru leiðrétt þó að það kosti æðidrjúgan skilding. Því sannleikurinn er auðvitað sá að ef þeim aðilum hefði ekki verið hleypt inn í Landsvirkjun á sínum tíma ætti ríkissjóður Landsvirkjun í heilu lagi og hefði ekkert lagt meira til eða lítið meira en það sem fyrir liggur að lagt hefur verið til.

Ég er þó ekki að halda því fram að Reykjavíkurborg og Akureyrarbær hafi ekki lagt eitthvað til Landsvirkjunar. Ég fékk svar við fyrirspurn líklega á árinu 1992 eða 1993 og aftur árið 2003, þar sem farið var yfir framlög eigenda til fyrirtækisins. Þau eru vissulega fyrir hendi. Reykjavíkurborg lagði t.d. til nokkur framlög líklega á 7. og 8. áratugnum þegar Landsvirkjun gekk sem verst. En þeir aðilar fengu líka og hafa fengið allan tímann, eða í þó nokkuð mörg ár er öllu heldur réttara að segja, framlög eða greiðslur frá fyrirtækinu vegna eigendaábyrgðar. Verulegir fjármunir eru þar á ferðinni. Ég held að ef dæmið er gert upp séu framlög Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar því ekki mjög há.

En það verður að horfast í augu við staðreyndirnar. Reykjavíkurborg og Akureyrarbær áttu þessa hluti. Þá verða menn að vinna með það. Það var hins vegar afar óheppilegt að þessir eigendur væru að Landsvirkjun ásamt ríkinu. Það varð enn erfiðara og óheppilegra eftir að menn lögðu af stað í þær breytingar á raforkumarkaðnum sem hefur staðið yfir á undanförnum árum. Það þurfti þess vegna líka af þeim ástæðum að taka á þeim málum. Þess vegna fagna ég því að niðurstaða skuli vera komin og að leyst verði úr þeim eignarhaldsvanda sem búinn er að vera á Landsvirkjunarhlutunum fram að þessu.

Ég vil í upphafi ræðu minnar, vegna þeirra orðaskipta sem urðu hérna áðan um einkavæðingu Landsvirkjunar eða ekki einkavæðingu, grípa niður í þann samning sem gerður var milli Reykjavíkurborgar, Akureyrarbæjar og ríkisvaldsins um kaup á þeim hlutum. Ég vil til upplýsingar fyrir umræðuna, með leyfi forseta, vitna í samninginn. 5. gr., undir fyrirsögninni Leiðrétting kaupverðs, gengur út á að útskýra hvað eigi að gera ef Landsvirkjunarhlutir verða seldir í meira mæli en sem svarar 15% á næstu árum. Ég ætla ekki að lesa það allt saman, en vil, með leyfi forseta, vitna aðeins í samninginn. Þar stendur:

„Ákvæði þetta um leiðréttingu kaupverðs á einungis við selji kaupandi eignarhlut sinn beinni til sölu til þriðja aðila. Það skal ekki eiga við (i) þótt um sé að ræða sameiningu Landsvirkjunar við önnur fyrirtæki í eigu kaupanda,“ — sem er náttúrlega ríkið — „(ii) þótt Landsvirkjun verði breytt í hlutafélag,“ — það er þó alla vega hugmynd að Landsvirkjun verði breytt í hlutafélag — „(iii) þótt annað fyrirtæki sé sameinað Landsvirkjun, hvort heldur með samruna eða kaupum, þar sem gagngjaldið er einungis eignarhluti í Landsvirkjun, …“

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að nýr aðili getur komið inn í Landsvirkjun þar sem menn færa eignir á milli, eftir því sem ég skil best og ég verð þá leiðréttur ef annað er upp á teningnum, þ.e. ef þriðji aðili gerist eigandi að Landsvirkjun, aðrir en eru núna. Talað er um einn aðila í viðbót, sem er reyndar bara sýndaraðili að eignarhaldinu til að halda megi sig við það sameignarfyrirkomulag sem um ræðir. Ef þriðji aðili verður eigandi gildir ekki þetta undanþáguákvæði, þ.e. ef einungis er skipt á eignarhlutum í viðkomandi fyrirtæki við Landsvirkjun. Einhverjar hugmyndir hljóta að vera á bak við það þegar menn setja svona fyrirvara í samning.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„… (iv) þótt stofnfé Landsvirkjunar verði aukið og þriðji aðili leggi það viðbótarstofnfé inn til Landsvirkjunar.“

Hvað þýðir það? Þetta þýðir að opna á fyrir þann möguleika að einhverjir aðrir verði eigendur að Landsvirkjun. Á bak við þetta hljóta að vera einhverjar hugmyndir um hvað geti gerst eða hvaða möguleikar eru í stöðunni. Vel að merkja, þetta gildir aðeins í fimm ár. Það er því svolítið merkilegt að menn séu að gera ráð fyrir öllum þessum möguleikum þegar ekki er gerð undanþága til lengri tíma en fimm ára.

Mér finnst yfirlýsing hæstv. ráðherra um að ekkert af þessu tagi standi til, þ.e. engin einkavæðing sé á dagskránni, þá er merkilegt að einungis til fimm ára skuli menn hafa alla þessa fyrirvara og undanþágur frá ákvæðinu um leiðréttingu á kaupverði sem ég vitnaði til.

En þá ætla ég aftur að upphafi ræðu minnar sem ég hóf með því að tala um eignarhlutina. Mikil ástæða er til að gera breytingar á þessu. Í fyrsta lagi er Landsvirkjun gríðarlega mikilvægt fyrirtæki. Fyrirtækinu hefur verið trúað fyrir að nýta einhverjar bestu og hagkvæmustu orkulindir sem til eru í landinu. Orkukosti sem menn hafa valið fremst í röðina til virkjunar á undanförnum áratugum. Þess vegna er það afar mikilvægt hvað menn gera við þá kosti í framtíðinni. Þetta hljóta menn að þurfa að setja í samhengi við þá umræðu sem fer fram í samfélaginu núna um auðlindir í almannaeigu, auðlindir í þjóðlendum og hvernig eigi að fara með þær auðlindir, sem við gerum að minnsta kosti flest öll ráð fyrir að verði gerðar að þjóðareign til framtíðar.

Það er skoðun mín að ýmsar af þeim auðlindum sem Landsvirkjun hefur núna undir höndum eigi að vera hluti af þeim þjóðarauðlindum sem varðveita á sem þjóðareignir til framtíðar. Þess vegna er mikilvægt að þær eignir skuli vera komnar í hendur ríkisvaldsins til að hægt sé að fjalla um þetta allt saman, með öðrum auðlindum, t.d. í þjóðlendum og á hafsbotni og hvar sem er, hvernig eigi að koma þeim fyrir til framtíðar litið.

Hinn hluti málsins er samkeppnisvæðing á raforkumarkaðnum sem stjórnvöld hafa staðið fyrir og talað fyrir á undanförnum árum, sem auðvitað er ekki hægt að framkvæma nema búa til einhvers konar samkeppnisumhverfi. Það hlýtur að vera furðulegt í augum fólks sem hefur hlustað á slíkar yfirlýsingar á undanförnum árum, að sjá þær tillögur koma frá ríkisvaldinu, frá ríkisstjórninni, þ.e. að verið er að kaupa Landsvirkjun. Gott og vel. En tillögurnar um að sameina síðan Landsvirkjun og önnur fyrirtæki á orkumarkaðnum fylgja með, og allt hangir þetta saman. Það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni hvers vegna menn gera þetta.

Mér finnst hæstv. ráðherra og fyrirsvarsmenn ríkisstjórnarinnar ekki hafa útskýrt það með neinum þeim hætti að hægt sé að skilja hvers vegna ríkisstjórnin, sem taldi sig nauðbeygða til að fara í þessa för, þ.e. koma á samkeppnisumhverfi í raforkugeiranum vegna þess að við höfum gert samning um Evrópska efnahagssvæðið og að þrýstingur væri þess vegna á okkur að koma á samkeppni, hvernig það getur svo stemmt saman að koma með tillögur um að sameina öll stærstu orkufyrirtæki í eitt. Af hverju gera menn þetta? Hvers vegna telja menn sig nauðbeygða til þess? Þær útskýringar verða að koma fram í umræðunni. Ekki er hægt að bjóða upp á annað.

Fram kemur í gögnunum að þetta muni auka eigið fé Landsvirkjunar sem hefur staðið í miklum fjárfestingum á undanförnum árum, en ekki er sagt að það sé aðalástæða þess að svona sé að farið. Ég held að hæstv. ráðherra verði að útskýra það á hv. Alþingi hvort það sé aðalástæðan. Ef það er aðalástæðan, hvers vegna í ósköpunum treysti ríkissjóður sér ekki til að koma með öðrum hætti að þessu máli en þeim að sameina eignarhaldið á öllum raforkufyrirtækjunum sem ríkið á í staðinn fyrir að reyna að búa til trúverðugt samkeppnisumhverfi á raforkumarkaðnum?

Ég segi það alveg hiklaust að hægt er að sjá fyrir sér aðra eignaraðila að einhverjum hluta þeirra eigna sem hér er um að ræða. Þá er ég ekki að tala um Landsvirkjun sjálfa, heldur hin fyrirtækin sem hafa, eins og Orkubú Vestfjarða, verið í eigu annarra aðila. En ríkið keypti. Ríkisvæðing raforkugeirans er orðin gríðarleg núna. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Pétur Blöndal sé mér sammála um það. Fyrst með kaupunum á Orkubúi Vestfjarða og síðan núna með helmingskaupunum á Landsvirkjun. En það má búa til úr þessu einhvers konar eða að minnsta kosti skárra samkeppnisumhverfi á raforkumarkaðnum en fyrir hendi er og að er stefnt með þeim tillögum sem við erum að sjá.

Ég ætla aðeins að ræða um kaupverðið. Það er skoðun mín að margt sé rétt í því sem minni hlutinn hjá Reykjavíkurborg hefur verið að segja um kaupverðið, að vel geti verið að í sjálfu sér hefði mátt reikna verðið mun hærra en gert var. En ég ætla ekki að kvarta undan því. Ég tel það hið besta mál að ríkissjóður geri góð kaup. Ég er sannarlega á þeirri skoðun að ríkissjóður sé að gera prýðileg kaup í samningnum við Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ um helmingshlut af Landsvirkjun. Þetta er gríðarlega verðmætt fyrirtæki. Þó svo ég sjái pínulítið eftir þessum aurum verð ég þó að viðurkenna að úr því að Reykjavíkurborg og Akureyrarbær áttu þennan hlut þá verði auðvitað að greiða fyrir hann þá fjármuni sem samkomulag gat orðið um.

Ég er á þeirri skoðun að ríkisvaldið, ríkissjóður og Alþingi þess vegna fyrir hönd hans, geti prýðilega unað við þá niðurstöðu sem nú liggur fyrir. Mér finnst að það hafi verið nokkuð vel sannað með þeirri yfirferð sem liggur fyrir frá þeim sem nú eru í minni hluta hjá Reykjavíkurborg.

Hæstv. forseti. Það eru fleiri mál hér undir. Ég ætlaði að reyna að aðskilja umræðuna um það sem hangir utan í þessu, þ.e. skipulagsbreytingarnar, og ég ætlaði reyndar ekki að hafa þær mikið inni í þeirri ræðu sem ég flyt nú um kaupin á Landsvirkjun og breytingarnar á lögunum sem fylgja þeim kaupum. Ég og við í Samfylkingunni erum að mörgu leyti sammála því að þurft hafi að leysa úr þessum eignarhaldsvanda. Það er gert með þessum hætti. Kaupverðið er prýðilega vel við unandi frá hendi ríkisvaldsins að mínu mati.

Ég ætla ekki að hafa ræðu mína lengri en mun ræða þessi mál betur þegar kemur að hinum málunum sem fylgja með. Ég fæ tækifæri til að fara yfir málin í iðnaðarnefnd. Þar þurfum við að fá svör við ýmsum spurningum. Ég sé alveg ástæðu til þess að til fróðleiks fari menn yfir upphafið að þessu. Ég held að líka sé ástæða til að menn kalli til sérfræðinga í því hvernig á að meta svona eignir eins og þessar því þarna eru á ferðinni gríðarlega miklar eignir. Ég set því aðeins fyrirvara við orð mín um það sem ég hafði yfir hér áðan, að ef sannara reynist þá auðvitað viðurkennir maður það. En með fljótlegri yfirferð og skoðun á því sem fyrir liggur sýnist mér að ríkið hafi gert býsna góð kaup.