133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[16:38]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Það eru ýmis atriði í þessu máli sem vert er að leiða hugann að og fjalla almennt um og gagnrýna. Ég tel fulla ástæðu til ítarlegrar umræðu um ýmsa þætti í stefnumörkun í raforkumálum hér á landi. Auðvitað mætti margt segja um fyrirhugaða sameiningu orkufyrirtækjanna þriggja, Landsvirkjunar, Orkubúsins og Rariks. En ég mun spara mér það þar til það frumvarp verður rætt síðar. Það er aðskilin umræða en ég einbeiti mér þess í stað að Landsvirkjun og álitamálum sem ég sé tengjast henni.

Ég vil fyrst setja spurningarmerki við þá breytingu í frumvarpinu að fyrirsvar vegna eignarhalds ríkisins í Landsvirkjun færist frá iðnaðarráðuneyti til fjármálaráðuneytis. Það hefur stundum verið ákveðið með lögum að fjármálaráðherra fari með hlutabréf í fyrirtækjum sem ríkið á hlut í en fagráðherrar hafa hins vegar engu að síður farið með málefnið, stjórn fyrirtækisins, stefnumörkun þess og annað sem lýtur að afskiptum af stofnun eða fyrirtæki. Þarna virðist mér nýmæli sem kannski þyrfti að fara betur yfir og rökstyðja.

Ég átta mig ekki á hvers vegna nauðsynlegt er að fela fjármálaráðherra stjórn þessa orkufyrirtækis í þessu tilviki, ekki bara ákvörðun um eignarhaldið, um meðferð hlutabréfa eða slíkt heldur ákvörðun sem fyrirtækið tekur um uppbyggingu, aðra stefnumörkun, verðlagningu og annað. Það er allt fært í hendur fjármálaráðherra ef ég skil þessa breytingu í frumvarpinu rétt. Mér finnst þurfa frekari rökstuðning fyrir slíkri tilhögun. Mér finnst eiginlega fagráðherrann aftengdur í þessu máli og ætlað það hlutverk eitt að taka við kærumálum eða úrskurða um álitamál sem varða viðkomandi fyrirtæki.

Ef þetta er almenn lína í stjórnskipuninni, sem ég held að sé ný enda man ég ekki eftir að hafa séð þetta áður, þá hlýtur hún að eiga við á fleiri sviðum. Til eru ýmis félög, þar á meðal hlutafélög, sem heyra undir samgönguráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið. Ég spyr mig því hvort þess megi vænta að mönnum finnist að fjármálaráðherra eigi að fara með stjórn þeirra fyrirtækja. Það ætti væntanlega að vera miðað við þá tillögu sem hér liggur fyrir, nema mér hafi yfirsést eitthvað í röksemdafærslunni. Vonandi verður það þá skýrt betur þannig að ég átti mig á hvers vegna þetta er haft svona.

Ég staldra dálítið við þetta, ekki síst vegna þess að fjármálaráðherra kemur úr þeim stjórnarflokknum sem er ákveðinn í og hefur sem afgerandi stefnu að einkavæða Landsvirkjun. Það hlýtur að breyta heilmiklu um framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar þegar fyrirsvar málsins færist á milli flokkanna. Ég hef því efasemdir um þessa breytingu. Ég tel reyndar eðlilegast að fagráðherrann fari með stjórn þessa fyrirtækis meðan ríkið á það, eins og verið hefur. Ég tel a.m.k. að reiða þurfi fram röksemdir eða frekari skýringar á því hvers vegna menn fara þessa leið í þessu tilviki.

Í öðru lagi — það undirstrikar áhyggjur mínar af þessari breytingu — hefur ríkisstjórnin haft stefnu sem ég hef haft nokkrar áhyggjur af á þessu kjörtímabili. Sú stefna birtist m.a. í tilkynningu um skipulagsumbætur á raforkumarkaði, fréttatilkynningu sem iðnaðar- og fjármálaráðuneytið gáfu út saman 17. febrúar á síðasta ári. Þar er greint frá áformum ríkisins um að sameina Landsvirkjun Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða eftir að hafa leyst til sín eignarhluta sveitarfélaganna í Landsvirkjun með því að sameina eigur ríkisins í eitt fyrirtæki.

Í fréttatilkynningunni segir, með leyfi forseta:

„… að gert sé ráð fyrir að sameinuðu fyrirtæki Landsvirkjunar, Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða hf. verði breytt í hlutafélag, þó eigi fyrr en á árinu 2008. Með hlutafélagavæðingu eru sköpuð skilyrði fyrir aðkomu nýrra fjárfesta að fyrirtækinu.“

Í bæklingi sem iðnaðarráðuneytið gaf út í febrúar 2005 undir heitinu Meginverkefni og áherslur á sviði iðnaðar- og viðskiptamála 2003/2005, stefnumið og framkvæmdir, segir á bls. 10 nákvæmlega það sama og ég las upp úr fréttatilkynningunni, að gert sé ráð fyrir því að fyrirtækinu verði breytt í hlutafélag og sköpuð verði skilyrði fyrir aðkomu nýrra fjárfesta að fyrirtækinu. Í viðtali við Morgunblaðið, 18. febrúar 2005, skýrði iðnaðarráðherra þessa stefnumörkun á þá lund að það væru áform um að breyta fyrirtækinu í hlutafélag eftir þrjú ár og enn fremur sagði iðnaðarráðherra, með leyfi forseta:

„Á þeim tímapunkti verður að meta hvenær er rétt að opna fyrirtækið fyrir nýjum eigendum. Það er búið að móta þá stefnu að til þess muni koma.“

Þannig hefur stefna ríkisstjórnarinnar verið kynnt, að þetta nýja fyrirtæki eigi að vera hlutafélag og það sé búið að móta þá stefnu að það eigi að opna það fyrir nýjum eigendum.

Ég sé það í frumvarpinu að samningurinn við Reykjavíkurborg og Akureyrarkaupstað er á þá lund að hann er í fullu samræmi við þá stefnumörkun sem ég rakti úr fréttatilkynningu iðnaðarráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins og bæklingi iðnaðarráðuneytisins frá því á síðasta ári. Það segir einmitt í samningnum milli aðila, eins og minnst hefur verið á fyrr í umræðunni, það er sérstakt ákvæði í 5. gr. samningsins um leiðréttingu kaupverðs sem er til komið til þess að taka á því að ríkið sem eigandi Landsvirkjunar muni selja eignarhlut sinn að hluta eða öllu leyti, í beinni sölu til þriðja aðila. Þarna er þetta því áréttað enn í þessu ákvæði, áformin um að selja hlut í Landsvirkjun.

Það er reyndar svo nákvæmlega tíundað að það er tekið fram að ákvæðin um leiðréttingu kaupverðs eigi ekki við ef Landsvirkjun verði breytt í hlutafélag, sem auðvitað ítrekar enn fyrri stefnumörkun um að breyta fyrirtækinu í hlutafélag, og að ákvæðin um leiðréttingu eigi heldur ekki við þó að þriðji aðili leggi til viðbótarstofnfé inn í Landsvirkjun. Með öðrum orðum, þá áskilur kaupandinn, ríkið, sér rétt til þess að geta breytt Landsvirkjun í hlutafélag og fengið nýjan aðila inn í Landsvirkjun með hlutafé án þess að ákvæðið um leiðréttingu kaupverðs verði virkt. Síðan getur komið til þess að ríkið selji hlutabréfin.

Þau áform sem lýst var á síðasta ári eru því greinilega enn í fullu gildi. Ég vil segja, virðulegur forseti, að ég hef ekki verið í hópi þeirra þingmanna sem tala fyrir því að Landsvirkjun verði seld. Ég skal ekki segja hvort þurfi nokkuð að amast við því að breyta fyrirtækinu í hlutafélag, ég er svo sem ekkert sérstakur áhugamaður um það þótt út af fyrir sig þurfi það ekki að vera svo slæmt, en mér finnst aðalatriðið í stefnumörkuninni vera það að fyrirtækið verði áfram í opinberri eigu, ekki endilega vegna þess að ég telji að fyrirtækið eigi að vera það, heldur vegna þess að Landsvirkjun er yfirgnæfandi fyrirtæki á raforkumarkaði. Það hefur algjöra sérstöðu varðandi markaðshlutdeild.

Með því að sameina þessi þrjú fyrirtæki undir einn hatt hefur það líka algjöra sérstöðu varðandi eign á virkjunum og möguleika á virkjunarkostum, það hefur því í raun og veru algjöra einokunaraðstöðu. Það að ríkið eigi fyrirtæki sem er í þessari stöðu getur gengið meðan ríkið gætir almennra hagsmuna viðskiptavina fyrirtækisins, en það er auðvitað allt annað uppi á teningnum þegar menn hleypa nýjum aðilum inn sem eru komnir eingöngu á þeim forsendum að hagnast og huga fyrst og fremst að arðsemi síns fjár, sem eðlilegt er, því þá eru neytendurnir, viðskiptavinir fyrirtækisins í þeirri stöðu að þeir eiga sér engar varnir gagnvart þessum einokunarrisa. Þess vegna geta menn auðvitað keypt hlutafé í Landsvirkjun dýrum dómum vegna þess að menn geta haft nokkuð trygga aðstöðu til þess að verðleggja vöruna sem fyrirtækið selur á því verði að dugi til að standa undir kaupunum og álitlegum arði. Það vantar samkeppnisþáttinn inn í málið, það vantar þá aðstöðu sem þarf að vera á svona markaði, að það sé samkeppni á milli aðila sem heldur aftur af því að seljandinn nái í rauninni sínum peningum upp úr vösum neytendanna, eins og það er við þessar aðstæður. Þetta er svipað og er á fjarskiptamarkaði þar sem kaupin eða sala ríkisins á Landssímanum, sem var seldur á mjög háu verði, eru einmitt vegna þess að fyrirtækið hefur svo sterka stöðu á markaði og það er svo lítil samkeppni að kaupandinn gat leyft sér að borga hátt verð og verið nokkuð viss um að geta innheimt það af neytendum fyrirtækisins í gegnum verðið af þjónustunni sem seld er. Afstaða mín byggist þar af leiðandi á því að ég tel að neytandinn í þessu máli sé óvarinn og á meðan sú staða er uppi á þessum markaði þá sé ekki heppilegt að hleypa öðrum aðilum inn í fyrirtækið og ekki heldur arðsemissjónarmiðunum.

Ég vil svo segja líka, virðulegi forseti, og það er sérstakur þáttur í málinu að ríkið er að kaupa af tveimur sveitarfélögum eignarhlut á 30 milljarða kr. Ég legg ekkert mat á verðmæti í því, ég hef svo sem ekkert sett mig inn í hvað er eðlilegt og óeðlilegt verð fyrir þennan hlut. Ég vek bara athygli á því að þarna er ríkið í raun og veru að leggja tveimur sveitarfélögum til feiknarlega mikla peninga sem raska innbyrðis stöðu sveitarfélaganna og það sveitarfélag sem best stendur á landinu fær þarna nærri 30 milljarða kr. Hvernig halda menn að sveitarfélag annars staðar á landinu eða jafnvel bara annars staðar á höfuðborgarsvæðinu standi í samanburði við Reykjavíkurborg eftir þessa innspýtingu? Ég er ekkert að efast um lagalegt gildi þess, ég er bara að draga fram að þarna verður mikið misvægi á milli sveitarfélaganna.

Það má kannski með einföldum hætti búa til röksemdir fyrir því að segja að þarna sé ríkið í raun og veru með eina mestu byggðaaðstoð sem um getur í Íslandssögunni, það er hægt að færa rök fyrir því. Ég vil kannski gera það svolítið í lokin, virðulegi forseti, og spyr: Hvað lögðu þessi sveitarfélög til sem nú selja hlut sinn til Landsvirkjunar? Hvað lögðu þau mikið af mörkum af skattpeningum sínum til þess að búa til þá eign sem þau selja núna?

Það merkilega er þegar maður skoðar þá sögu, sem má finna m.a. í þingskjölum á 130. löggjafarþingi, þskj. 1667, sem er svar iðnaðarráðherra við fyrirspurn minni um Landsvirkjun, og í þingskjölum á 121. löggjafarþingi, þskj. 560, sem var nefndarálit um frumvarp um Landsvirkjun sem þá var til meðferðar á Alþingi. Þar kemur fram, og reyndar í fleiri þingskjölum sem ég nefni ekki að sinni, að framlög eigendanna, Reykjavíkurborgar, ríkisins og Akureyrarbæjar, voru metin eða hafa verið metin á verðlagi ársins 1995 á 7,2 milljarða kr. Af þeim peningum voru liðlega 5,3 milljarðar eignir, þ.e. Sogsvirkjun og Laxárvirkjun. Um ¾ af framlögum eigendanna voru þessar virkjanir. Aðeins um 2 milljarðar kr. voru peningaframlög eigendanna og Reykjavíkurborg hafði lagt fram um 1.200 millj. kr., í peningum á verðlagi ársins 1996. Þeir peningar voru ekki lagðir fram af skattfé Reykjavíkurborgar heldur Rafmagnsveitum Reykjavíkur, sem lögðu fram þessi framlög Reykjavíkur. Þeirra peninga, eftir því sem ég best veit, var aflað með tekjum af rekstri rafmagnsveitnanna, þ.e. raforkukaupendur í Reykjavík borguðu það hátt verð fyrir raforkuna að fyrirtækið gat hagnast og haft þennan pening til að leggja fram sem framlag Reykjavíkurborgar.

Á móti þessu framlagi hefur t.d. Reykjavíkurborg, af því að ég nefni framlag hennar, 1.253 millj. kr., fengið fram til ársins 2003 um 1.200 milljónir í ábyrgðargjald og um 1.300 milljónir í arðgreiðslur. Í raun og veru á móti sínum peningalegu framlögum hefur Reykjavíkurborg fengið nánast tvöfalt til baka í arðgreiðslum og ábyrgðargreiðslum. Í sjálfu sér hefur því borgin aldrei lagt neitt fram heldur fengið út til baka frá viðskiptavinum Landsvirkjunar, þ.e. ekki bara almenningi í Reykjavík, heldur almenningi um allt land.

Þá kemur næsta spurning: Hver borgaði Sogsvirkjun og Laxárvirkjun, sem eru uppistaðan í framlögum Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar? Þegar maður skoðar það þá voru það bandarískir skattgreiðendur sem lögðu það til, um 77% af því fjármagni sem Marshall-aðstoðin var var gjafafé, það var ekki rukkað til baka. Það rann í Mótvirðissjóð og hann lánaði síðan peninga til þess að reisa Sogsvirkjun og Laxárvirkjun. Mótvirðissjóður lánaði um 117 millj. kr. af þeim 194 sem Sogsvirkjun kostaði, um 43 millj. kr. af þeim 62 sem Laxárvirkjun kostaði, þ.e. Marshall-aðstoðin fjármagnaði um 60% af Sogsvirkjun og 70% af Laxárvirkjun. Fyrirtækin borguðu síðan þetta lán til baka, það voru ekki „eigendurnir“ sem borguðu það, það voru raforkukaupendurnir, það var almenningur sem borgaði þá peninga. Þegar maður því rýnir ofan í þetta þá koma allir peningarnir frá þeim sem borguðu orkureikningana, ekki frá sveitarfélögunum og ekki frá ríkinu, heldur frá þeim sem borguðu raforkureikningana þannig að þegar það er haft í huga er það nú svolítið óeðlilegt að sveitarfélag fái 30 milljarða kr. fyrir það sem aðrir borguðu í raun.