133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[17:19]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson bað mig um að lýsa afstöðu minni til hlutafélagavæðingar RÚV. Ég skal gera það þótt það sé dálítið utan dagskrár, frú forseti. Ég leyfi mér það.

Ég er hlynntur því að hlutafélagavæða RÚV vegna þess að það auðveldar það að selja fyrirtækið. En það verður að sjálfsögðu ekki gert nema meiri hluti sé fyrir því á Alþingi. Þá breytir í sjálfu sér ekki miklu hvort búið er að hlutafélagavæða það eða ekki. Sé meiri hluti á Alþingi fyrir að selja RÚV þá yrði það gert hvort sem það er orðið hlutafélag eða ekki.

Varðandi málið sem við ræðum hér þá langar mig að spyrja hv. þingmann, sem er formaður BSRB, um hvernig hann lítur á málið gagnvart félagsmönnum sínum hjá Reykjavíkurborg sem eru í B-deildinni og hinum í A-deildinni. Þetta rennur eiginlega eingöngu til B-deildarinnar. Nú man ég það ekki nákvæmlega en ef ég man rétt eru þeir um 2.000–3.000, þ.e. borgarstarfsmenn. Þarna er þá um að ræða um 10 millj. kr. á hvern borgarstarfsmann í Reykjavík. Ef helmingurinn er í B-deildinni eru þetta 20 millj. kr. á hvern þann sem þessa nýtur. Þetta borga að sjálfsögðu allir skattgreiðendur í Reykjavík.

Það sem ég ætla að spyrja hv. þingmann um er: Hvernig líst honum á að mismuna opinberum starfsmönnum með þessum hætti?