133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[17:25]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hlýtur að vera erfitt fyrir forustu Framsóknarflokksins að sitja undir ræðum frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem tala beinlínis um að þeir vilji hlutafélagavæða ríkisfyrirtæki eins og Ríkisútvarpið og Landsvirkjun, beinlínis til að greiða fyrir sölu þeirra.

Ég kem þó ekki hingað til að deila á þingmenn Sjálfstæðisflokksins fyrir það. Ég vil hins vegar segja að ég deili áhyggjum hv. þm. Ögmundar Jónassonar um að hér sé beinlínis stigið fyrsta skref að því að einkavæða Landsvirkjun. Hv. þingmaður flutti góða ræðu þar sem hann rakti margvíslegar vísbendingar um þau áform ríkisstjórnarinnar. Ég held líka að það sé rétt hjá hv. þingmanni að þetta sé hinn raunverulegi tilgangur Sjálfstæðisflokksins. Ég tel líka rétt hjá honum að draga eigi Framsóknarflokkinn í enn eitt skiptið til að liðsinna við einkavæðingu.

Frú forseti. Ég segi þetta vegna þess að borgarfulltrúar Samfylkingarinnar í Reykjavík lögðust gegn þeim gjörningi sem er fóturinn undir þessu frumvarpi. Fyrir því höfðu þeir ýmis rök. Í bókun sem Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi, og fleiri borgarfulltrúar flokksins lögðu fram voru einkum þrenn rök sem hnigu að því að um rangan gjörning væri að ræða. Ein þeirra voru að fyrirvarar um einkavæðingu halda ekki.

Það liggur fyrir að fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, núverandi hæstv. utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, sagði í viðtali að þetta væri áfangi á leið að því að einkavæða fyrirtækið. Það er ljóst og það var bara kippt í hana til að koma í veg fyrir að málið stoppaði af þeim sökum. Þarna birtist enn einn klofningurinn í Framsóknarflokknum um þetta.

En mér þykir merkilegt að hv. þm. Ögmundur Jónasson, þó skýr sé, skuli ekki sjá að í þessu frumvarpi eru enn ein rökin fyrir því að það eigi að einkavæða. Þar segir beinlínis á bls. 4 að heimild sé til þess að breyta verðinu í samningnum ef ríkissjóður selji eignarhlut sinn fyrir 1. janúar 2012. Ég spyr hv. þingmann: Tók hann ekki eftir því? Er hann mér ósammála um að þetta sé enn ein röksemdin fyrir hinum raunverulegu (Forseti hringir.) áformum ríkisstjórnarinnar?