133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[17:28]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég tók eftir þessu ákvæði í lagafrumvarpinu. Reyndar hafði ég skoðað það í öðru samhengi, út frá hagsmunum seljanda, Reykvíkinga annars vegar og Akureyringa hins vegar. Þetta kom til umræðu á fundi sem við áttum í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Hitt hafði mér ekki hugkvæmst, sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson bendir réttilega á, að með þessu er sýnt hvað vakir fyrir frumvarpshöfundum, að selja þetta fyrirtæki og koma því á markað. En ég sakna þess að við höfum ekki fengið fulltrúa ríkisstjórnarinnar, hæstv. ráðherra, til þess að tjá sig um þá vegferð sem flokkurinn og ríkisstjórnin er á.

Ég tek undir með hv. þingmanni Össuri Skarphéðinssyni, að það er athyglisvert að hlusta á yfirlýsingar frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um að þeir styðji þessi frumvörp fyrst og fremst vegna þess að með því sé búið í haginn fyrir einkavæðingu, fyrir sölu þessara fyrirtækja. Ekki aðeins raforkufyrirtækja, heldur einnig Ríkisútvarpsins. Hér var það staðfest eina ferðina enn að stuðningur ýmissa þingmanna Sjálfstæðisflokksins ... (Gripið fram í: Þingmanns.) Þeir eru fleiri sem hafa talað í þessa veru. Hv. þm. Pétur H. Blöndal er ekki eini þingmaðurinn sem flutt hefur frumvarp þess efnis að selja eigi Ríkisútvarpið. Þeir voru fleiri þar með í för. Þeir voru a.m.k. þrír talsins. Hv. þm. Kjartan Ólafsson talar um að eðlilegt sé að selja raforkufyrirtækin ef gott verð fæst fyrir þau. Þetta eru menn sem tala hreint út og koma heiðarlega til dyranna. En verður það sagt um (Forseti hringir.) Framsóknarflokkinn?