133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[18:15]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi það að einkaaðilar hafi eyðilagt auðlindir þá hafa þeir ekki átt þær sjálfir. Það er kannski akkúrat meinið. Einkaaðilar hafa eyðilagt auðlindir sem aðrir áttu eða enginn átti. Ef menn eiga þær sjálfir þá rækta þeir það, þá gæta þeir sín á því að eyðileggja ekki auðlindina (Gripið fram í.) til þess að þeir og börnin þeirra njóti hennar áfram. Þetta styður einmitt það að þetta skuli vera einkaeign.

En varðandi það að ég sé ekki ákveðinn í þessu máli og sé ekki búinn að finna sannleikann þá hafa nú sumir sagt að þeir sem hafi fundið sannleikann séu hættulegt fólk en þeir sem leiti hans séu gott fólk. Auðvitað þurfa menn að ræða kosti og galla hluta. Ég er að ræða hérna kosti og galla og ég vil að sú umræða verði meira ríkjandi, þ.e. að menn ræði kosti og galla þess að ríkið eigi þessa auðlind til frambúðar og leigi hana til mjög langs tíma eða einkaaðilar eigi hana eins og bændur og jarðeigendur eiga landið. Ég vil að menn ræði kosti og galla þess. Yfirleitt er það þannig eða þ.e. minn flokkur og það fólk sem hefur slíka heimssýn, að þeir trúa því að einkaeign gefist yfirleitt betur en almannaeign eða ríkiseign.

Varðandi fiskinn í sjónum þá er eitt vandamál með hann sem er öndvert við það þegar bóndi á foss — ég bendi á að bændur eiga fossa í dag sem þeir geta nýtt — öndvert við það er að fiskurinn syndir um sjóinn og það er ekkert hægt að afmarka hann því hann getur synt til annarra landa. Það er ekki hægt að afmarka hann við ákveðinn blett eða svið og þess vegna er eignarhaldið svo erfitt á þeirri auðlind. Hins vegar er fossinn á sínum stað og vatnið. Svo lengi sem jöklarnir eru til staðar og bráðna verður vatnsorkan til staðar og getur vel verið einkaeign nákvæmlega eins og landið sem við leigjum hérna í Reykjavík.