133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[19:41]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gleymi engu. Ég hef lagt fram spurningar á þingi til að fá fram sannleikann um einkavæðingu Búnaðarbankans. Ég fékk svör sem ég tel ekki vera fullnægjandi og ég mun ganga eftir þeim svörum í þinginu fyrir næstu kosningar. Hv. þingmaður má vita að ég hef engu gleymt og ég vil fá allar þessar staðreyndir upp á borðið.

Varðandi bankana og vel rekna banka þá snýst þetta mál ekki um það. Það snýst um stjórnvaldsaðgerðir og hvernig stjórnvöld hafa staðið að einkavæðingu í landinu og hvaða einstaklingar og hópar, og þá í og með og ekki síst þeir sem staðið hafa í skjóli Framsóknarflokksins, hafa hagnast á henni. Það er lýðræðinu og sannleikanum nauðsynlegt að leiða það fram í dagsljósið.

Að ég sé að draga í land varðandi ummæli mín gagnvart hæstv. iðnaðarráðherra þá er ég síður en svo að gera það. Ég hef fært rök fyrir máli mínu, ég hef óskað eftir því að hæstv. ráðherra geri okkur grein fyrir því hvert þessi vegferð muni leiða okkur.

Ég minni hv. þm. Hjálmar Árnason á að við settumst saman á þing vorið 1995 og ég hygg að það hafi verið árið eftir að umræða hófst um hlutafélagavæðingu Landssímans. Man hv. þingmaður eftir þeirri umræðu? Ég stóð þá klukkutímum saman, dögum og vikum saman í umræðu um það efni. Ég man eftir öllum heitstrengingunum, öllum loforðunum sem síðan voru öll svikin af Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Og þegar ég heyri núna hv. þm. Hjálmar Árnason segja: „Gleymum þessu, horfum nú bara til framtíðarinnar“, (Forseti hringir.) þá hef ég mínar miklu efasemdir.