133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[19:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst ótrúlega aumt af hv. þm. Hjálmari Árnasyni að ætla að reyna að telja okkur trú um að komin sé ný ríkisstjórn þótt skipt hafi verið um formann Framsóknarflokksins. Þótt fyrrverandi formaður hrökklaðist frá og kominn sé annar er ekki þar með sagt að búið sé að breyta um stefnu og ríkisstjórn. Honum finnst að þess vegna eigi ekkert að velta fyrir sér hvað fyrrverandi iðnaðarráðherra hafi sagt og hvað fyrrverandi forætisráðherra hafi sagt vegna þess að það sé komin ný ríkisstjórn, búið að skipta um formann Framsóknarflokksins, hann sé orðinn iðnaðarráðherra og þá sé nýtt upp á teningnum.

Ég veit ekki betur en þetta sé sama ríkisstjórn og tók við 1995 og hefur verið allt of lengi. (Gripið fram í.) Hvernig ætlast þingmaðurinn til að vera tekinn alvarlega með því að segja að með því að skipta um einn ráðherra sé hægt að kynna nýja stefnu og enginn þurfi að svara fyrir orð fyrrverandi ráðherra flokksins?

Mér er ofboðið. Hvað sem menn segja um það sem flokkurinn gerir rangt og vitlaust þá vita flestallir í þjóðfélaginu að stefna Framsóknarflokksins í einkavæðingarmálum er gengin fram af fólki. Af hverju á samt að svíkja félaga sína og segja að komin sé ný stefna? Ég leyfi mér að spyrja þingmanninn: Hver er aftur tilgangurinn með þessu frumvarpi sem við ræðum um hérna, um að breyta eignarhaldi á Landsvirkjun? Hann hefur hvergi komið fram. Hins vegar er það yfirlýst stefna af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar Framsóknarflokksins, ef hv. þingmaður vill telja að nú sé komin ný ríkisstjórn, að leysa til sín eignarhlut (Forseti hringir.) sveitarfélaganna í Landsvirkjun í ákveðnum tilgangi.