133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[19:48]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki á hvað hv. þingmaður var að fara með athugasemd sinni að öðru leyti en hinni gömlu tuggu hans um einkavæðingu, gamalkunnugum áróðri hans um einkavæðingu og aftur einkavæðingu. Hins vegar kom fram draumur hans um að núverandi ríkisstjórn fari frá.

Það er vel skiljanlegt að hv. þingmaður vilji þessa ríkisstjórn frá hafandi í huga að frá 1995, þegar var hér mikið atvinnuleysi, stöðnun og lítið að gerast í atvinnulífinu, hefur atvinnuleysið blessunarlega horfið, hagvöxtur orðið meiri hér en nokkurs staðar í samkeppnislöndum sem við miðum okkur við. Efnahagurinn hefur verið með því móti að á alþjóðavísu skorum við verulega hátt. Það er von að hv. þingmaður vilji ekki sjá meira af þessu.

Hv. þingmaðurinn furðar sig á því að ég skuli benda á að í ræðum hans og fleiri hv. þingmanna er stöðugt vísað til fyrrverandi iðnaðarráðherra. Ég er hissa á því, af því að menn eru svona í sögunni, að þeir skuli ekki ganga lengra aftur í tímann og þylja upp alla þá iðnaðarráðherra sem hér hafa starfað.

Við erum einu sinni að fjalla um frumvarp sem núverandi hæstv. iðnaðarráðherra flytur. Núverandi hæstv. iðnaðarráðherra boðar þar sína stefnu og ábyrgð sem iðnaðarráðherra í núverandi ríkisstjórn. Þess vegna er það eiginlega óskiljanlegt að hv. þingmaður skuli vera svo fastur í fortíðinni. En kannski kemur það ekki á óvart.