133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[20:28]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra talaði um að eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar væri traust. Þá endurtek ég það sem ég spurði um í ræðu minni: Hverjar eru ástæðurnar fyrir því að það er verið að sameina öll þessi fyrirtæki á raforkumarkaðnum?

Ég vil spyrja annars líka og fá betur fram hjá hæstv. ráðherra. Við fórum í þann leiðangur að koma á samkeppnisumhverfi á raforkumarkaðnum m.a. vegna þess að við höfðum skrifað undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Er hæstv. ráðherra á þeirri skoðun að þessi gríðarlega samþjöppun á markaðnum sem ríkisvaldið stendur fyrir núna geti farið saman við þau viðhorf sem eru á bak við það að koma á einhvers konar samkeppnisgrundvelli á þessum markaði? Ég spyr að því.

Síðan spurði ég hæstv. ráðherra og hann svaraði því ekki í ræðu sinni hvort hann sem ráðherra byggðamála teldi ekki ástæðu til þess að þær gríðarlegu eignir sem nú færast í fjármunum til Reykjavíkurborgar og Akureyrarkaupstaðar gefi tilefni til þess að menn velti fyrir sér, þótt ekki væri nema til að skoða málið, að önnur sveitarfélög geti notið sambærilegra hluta og þessum sveitarfélögum einum var boðið upp á, hvort veisluborðið væri í raun og veru bara fyrir þessi tvö sveitarfélög eða hvort fleiri kæmu þar til greina.