133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[20:33]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í síðari ræðu sinni tekur skólamaðurinn í hæstv. ráðherra yfir þegar hann fer að gefa umræðunni hér einkunn og segir að hún hafi að hluta byggst á útúrsnúningum. Ég mótmæli því. Ég hef hlustað á alla umræðuna hér í dag og það er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að málið sé svo þröngt að hér megi einungis ræða um kaup. Hér má nefnilega líka ræða um sölu, og við hv. þingmenn þurfum ekki leyfi þessa hæstv. ráðherra til að reyna að sjá hlutina í stóru samhengi, til þess að víkka sjóndeildarhringinn og horfa á hlutina frá eins víðum sjónarhóli og hægt er. Það er sjálfsögð skylda okkar sem hingað erum kosin að gera það, og betur væri ef hæstv. ráðherra léti sér segjast í þessum efnum og ræddi hina stóru drætti í þessari mynd, ræddi framtíðarstefnu þessarar ríkisstjórnar í raforkumálum.

Hann er ófús til að gera það og ég skil það vel. Ég hef þá kenningu að það sé vegna þess að hann hafi eitthvað fyrir okkur að fela, hann vilji ekki fara út í að ræða við okkur þessa stóru drætti vegna þess að við höfum komið með vísbendingar um það að ríkisstjórnin ætli sér meira á þessum markaði en gefið hefur verið út. Þess vegna hefur m.a. verið dregin hérna fram sú staðreynd að Olíufélagið hefur gefið það út að það sé núna tilbúið til þess að losa um ákveðnar eignir hjá sér til þess að eiga meiri möguleika á að koma inn í orkugeirann og fjárfesta þar, hvort sem er í vatni eða rafmagni. Þessar yfirlýsingar eru búnar að liggja fyrir af hálfu Olíufélagsins allt þetta ár og það er alveg eðlilegt að þessir hlutir séu dregnir hér inn.

Varðandi eiginfjárstöðu Landsvirkjunar svaraði hæstv. ráðherra því eingöngu til að hún væri traust. Ég veit ekki betur en að eiginfjárstaða Landsvirkjunar hafi farið dalandi og versnað, (Forseti hringir.) ekki bara í ár heldur líka í fyrra.