133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[21:34]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Þó að ég kunni að hafa mikla trú á framtíðarmöguleikum orkumarkaðar geng ég ekki svo langt í því að horfa á hina breiðu heildarmynd að líkja honum saman við allsnægtaríki sósíalismans, eins og það var túlkað hér í gamla daga en kom að nokkru leyti fram í orðum síðasta hv. ræðumanns. Ég legg þvert á móti þunga áherslu á að það er mjög viðurhlutamikið verkefni að móta orkumarkað og mjög mörg af þeim sjónarmiðum sem hv. síðasti ræðumaður nefndi koma þar einmitt til skoðunar og þess vegna er svo mikilvægt að leyfa þessum markaði að þroskast, taka skrefin hægt og varlega vegna þess að hann þarf ekki aðeins að þroskast samkvæmt viðskiptalegum sjónarmiðum heldur líka í samræmi við samfélagsleg hlutverk sín og verkefni.

Það var spurst fyrir um fyrirætlanir nokkurra sjálfstæðra fyrirtækja á orkumarkaðinum. Ég get að sjálfsögðu ekki gert grein fyrir þeim því að um sjálfstæð og sjálfsábyrg fyrirtæki er að ræða. Það var spurst fyrir um erindi frá þeim fyrirtækjum til ráðuneytisins. Ég vænti þess að þau njóti jafnræðisréttinda um viðbrögð við þeim erindum ef þau koma fram.

Það hefur talsvert verið rætt um ástæður þess að breyting er gerð á eignartilhögun ríkissjóðs. Sannleikurinn er auðvitað sá, eins og hér hefur margsinnis komið fram, að hér er um ýmsa valkosti að ræða. Það voru ýmsar leiðir færar. Sú leið var valin að Rarik og Orkubú Vestfjarða halda áfram að vera sjálfstæð fyrirtæki sem sinna verkefnum sínum en hins vegar er breytt til um eignartilhögun ríkissjóðs. Með þessu öðlast fyrirtækin, að því er við ætlum, sterka viðspyrnu til framtíðarþjónustuþróunar sem eflir þau. Það eru meginmarkmiðin og eins og kom fram í frumræðu minni og kemur fram í greinargerðinni er það ekki meginmarkmið að styrkja eiginfjárstöðu Landsvirkjunar og ekki talin þörf á því.

Við verðum að hafa það í huga að það er sami eigandinn eftir sem áður þannig að hvað varðar samkeppnisaðstæður á þessum markaði verður ekki breyting að þessu leyti. Þetta er sami eigandinn og eftir sem áður eru fyrirtækin sérstök og sjálfstæð með sín sérstöku verkefni. Ég var spurður um viðhorf mín til markaðarins yfir höfuð og ég vil taka það fram um það að markaður verður auðvitað að uppfylla margvísleg skilyrði, þar verður neytandinn að hafa valfrelsi, raunverulegt valfrelsi þannig að um raunverulega samkeppni sé að ræða, án þess er ekki um markað að ræða. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar eins og aðrir framsóknarmenn, að markaðslögmálin eigi að lúta siðferðilegum, menningarlegum og mannúðlegum skilmálum enda setjum við manngildi ofar auðgildi.

Það var spurt um upptalningu í lögum. Því er einfaldlega til að svara að það er óþarft að hafa hana. Þessi fyrirtæki hafa sérstakar ábyrgar stjórnir og þau gefa út ársreikninga og ársskýrslur. Þetta ferli er allt saman gegnsætt og opið og augljóst öllum. Ríkisstjórnin hefur ekkert að fela í þessu frekar en í öðrum málum. Öll markmið hennar og vinnubrögð eru augljós í þessum málum enda hefur hún skilað þjóðinni miklum árangri.