133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Orkustofnun.

367. mál
[22:10]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir undirtektirnar við þetta frumvarp. Það er svolítill misskilningur varðandi ábyrgð á vatnafarsrannsóknum. Það er tekið fram í greinargerð, til að árétta það sérstaklega varðandi 1. gr., að framkvæmdin færist með vatnamælingunum en hins vegar heldur Orkustofnun áfram að kaupa þessa vinnu, kaupa þessi verkefni og bera ábyrgð á að upplýsinga verði aflað áfram.

Það er alls ekki ætlunin að seilast inn á verksvið Orkustofnunar en hins vegar er eðli þessara verkefna þannig að umhverfisþættir blandast alltaf inn í vatnafarsrannsóknir og vatnarannsóknir.

Varðandi stjórnsýsluverkefni átti hv. þingmaður kollgátuna, þ.e. að þau verkefni tengjast ekki síst tillögugerð auðlindanefndar.

Við höfum heyrt ábendingar hv. þingmanns um orðið „sjálfbær“. Sannleikurinn er sá að þarna er sami merkingarkjarni, að rekstur skilar því sama og til hans fer, alveg eins og gert er ráð fyrir á því merkingarsviði sem hv. þingmaður hafði orð á. En það er sjálfsagt að taka þetta til skoðunar.