133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vatnstjón á mannvirkjum á Keflavíkurvelli.

[13:31]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins vegna frétta af gífurlegu tjóni á mannvirkjum á Keflavíkurflugvelli vegna þess að vatnsleiðslur sprungu í frosti sem staðið hefur nú í nokkra daga. Eftir því sem ég kemst næst er um 20 íbúðarblokkir að ræða og heildarfjöldi íbúða í þessum blokkum er á bilinu 350–400. Þó að ekki sé búið að kanna tjónið að fullu halda menn að það geti verið tjón á um 200 íbúðum. Upphæðir tjónsins hlaupa á hundruðum milljóna króna.

Það er alveg sama hvernig við lítum á þetta mál, hér er ekki um neitt slys að ræða. Hér hafa ekki orðið náttúruhamfarir sem enginn gat séð fyrir. Frost í lok nóvember á Íslandi á íslenskum vetri er frekar fyrirsjáanlegt og menn hefðu átt að geta gert sér grein fyrir að slíkt væri fram undan. Þegar veðurspár bætast við sem spá hörkufrosti hefði maður haldið að þeir sem hefðu með þessar byggingar að gera mundu grípa til einhverra ráðstafana til að tryggja að ekki yrði tjón á byggingum.

Það er ekki utanríkisráðuneytinu að þakka að ekki fór verr. Við getum þakkað fyrir það og kallað það jafnvel glópalán að ekki skyldu fleiri byggingar fara á sama veg og þessar 20. Það hefur ekki verið um neitt eftirlit að ræða innan dyra í þessum byggingum, ekkert eftirlit með því hvort þar sé allt í lagi. Það er ekki eins og ríkið sé að reyna að spara með því að kynda ekki blokkirnar á Keflavíkurflugvelli. Utanríkisráðuneytið kaupir ákveðið magn af heitu vatni af Hitaveitu Suðurnesja í gegnum hemil en hleypir því ekki inn á blokkirnar, borgar fyrir heita vatnið en hitar ekki blokkirnar — og niðurstaðan er þessi.

Maður veltir fyrir sér hvað um sé að ræða. Er þetta algjört kæruleysi, eða hvað? Hver ber ábyrgðina á þessu? Hvernig var eftirliti háttað með þessum gríðarmiklu verðmætum sem eru þarna uppi á flugvelli, eða var kannski ekki um neitt eftirlit að ræða? Af hverju var ekki búið að hleypa hita á þessi mannvirki miðað við það að frost væri fram undan? Og síðasta spurningin: Hver kemur til með að bera tjónið af þessu? Verður það hið nýja Þróunarfélag sem þarf að bera hundruð milljóna króna tjón á þessum byggingum?