133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vatnstjón á mannvirkjum á Keflavíkurvelli.

[13:45]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson spyr: Hver bar ábyrgðina? Það hlýtur að liggja í augum uppi að sá sem ber hina formlegu ábyrgð á þessu er auðvitað hæstv. utanríkisráðherra. Hún hefur sjálf í reynd viðurkennt það með því að koma hingað og biðjast afsökunar á þeim mistökum sem hún ber formlega ábyrgð á.

Mér finnst það skipta miklu máli í þessari umræðu að hv. þm. Jón Gunnarsson upplýsti það í ræðu sinni áðan að utanríkisráðuneytinu hafi mörgum sinnum, ekki bara einu sinni heldur mörgum sinnum, verið bent á nauðsyn eftirlits. Bersýnilega brást ráðuneytið með engu móti við því. Hæstv. ráðherrann skýrir þessa atburði með því að ekki hafi verið eftirlit með öðru en mannaferðum. Í því felst viðurkenning hæstv. ráðherra á því að ekki hafi verið brugðist við þeim ítrekuðu óskum að eftirlit væri haft með þessum miklu fasteignum.

Mér fannst síðan ræða hins ágæta þingmanns Drífu Hjartardóttur vera fjarri öllum raunveruleika. Hún hélt því fram að óvanalegar veðurhörkur hefðu leitt til þess að menn hefðu ekki brugðist rétt við. Er það þannig fyrir okkur sem búum á Íslandi að við gerum ráð fyrir því að ekki verði frost að vetri til? Er það ekki eðlisfræðilegt lögmál að þegar hiti fer undir frostmark frýs vatn og þá er hætta á svona?

Frú forseti. Fyrst klúðruðu þeir varnarsamningunum. Síðan klúðruðu þeir samningum um viðskilnað. Þar á eftir klúðruðu þeir greiðslunum. Þeir tóku fasteignir upp í kostnað sem Íslendingar þurftu að inna af höndum og núna klúðruðu þeir líka því. Er hægt að komast öllu neðar, frú forseti?