133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vatnstjón á mannvirkjum á Keflavíkurvelli.

[13:47]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki gamanmál. Hér er á ferðinni nokkuð sem hæstv. ráðherra hlýtur að láta fara mjög vel yfir í ráðuneyti sínu. Hvernig stendur á því að menn láta heilt bæjarfélag, eins og þarna var, standa eftirlitslaust? Það dettur engum í hug að yfirgefa íbúðina sína lengur en viku án þess að láta fylgjast með henni. Þarna stendur heilt bæjarfélag og þá á bara að gá að því hvort á ferðinni séu einhverjir til að stela verðmætum, ekki að fylgjast með af öryggisástæðum eins og þarna hefði þurft að gera.

Ég held að það verði að upplýsa hverjir áttu að bera ábyrgð á þessu svæði. Það getur ekki verið annað en að einhverjum hafi verið falin ábyrgð á því að gæta öryggis á þessu svæði. Þeir aðilar hafa greinilega ekki verið starfi sínu vaxnir úr því að þeir töldu ekki ástæðu til að hafa eftirlit með eignunum sem þarna eru. Það getur ekki komið fólki á óvart að það frjósi á þessum árstíma á Íslandi. Það bara getur ekki verið.

Það að þessi hús séu eitthvað öðruvísi en önnur hús á Íslandi er heldur ekki rétt. Þau hafa að minnsta kosti staðið fram að þessu án þess að svona tjón yrði. Þeir sem hafa búið þar eru ekki aldir upp á Íslandi, eða fæstir af þeim, þannig að þeir hafa þó a.m.k. kunnað til verka við að passa þessar eignir.

Hér verða menn að upplýsa málið, ekki vegna þess að endilega þurfi að hengja einhverja eins og hér hefur komið fram í umræðunni heldur þurfa menn að vita hvers vegna þetta brást allt saman til að ekki verði önnur tjón í framhaldinu. Menn þurfa að læra af mistökunum. Hér eru aldeilis mistök á ferðinni og ástæða til að læra af þeim.