133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vatnstjón á mannvirkjum á Keflavíkurvelli.

[13:49]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þingmenn vita ákaflega vel hvernig ég hefði átt að gera þetta allt saman. En það eru gömul sannindi og ný að það er ákaflega auðvelt að vera vitur eftir á. Það get ég alveg sagt líka, eftir á að hyggja finnst mér að þarna hefði verið hægt að standa betur að málum. Ég endurtek þó að það var hiti á húsunum. Þó að þarna hefði verið eitthvert ágætt lið sem hefði haft það hlutverk að fylgjast með húsunum og fara inn í þau er ekki þar með sagt að það fólk hefði getað komið í veg fyrir þessar skemmdir, a.m.k. ekki að öllu leyti. Það er ekki hægt að fylgjast stöðugt með húsum. Það liggur líka ljóst fyrir. (Gripið fram í.)

En þannig er að Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli hefur frá 1. október sl. haft lyklavöldin á svæðinu en Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. sem stofnað var 24. október er í þann mund að taka við þeim svæðum sem því er ætlað að bera ábyrgð á. Þróunarfélagið mun þar með taka við hlutverki staðarhaldara á þessu svæði.

Það má kannski segja að þarna sé búið að vera ákveðið millibilsástand. Út af orðum hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar vil ég segja að það kom fyrir mig, þótt ég sé bóndi eins og hann segir, að allt rafmagn fór af húsinu mínu fyrir norðan fyrir nokkrum árum. Þar með fraus vatnið og það urðu skemmdir. Það er slæmt þegar þetta gerist en það var þó af því að hitinn fór af. Í þessu tilfelli fór ekki hitinn af. En bara vegna þess að enginn býr í húsunum og það er engin hreyfing á vatninu frýs það.

Þetta er mjög slæmt mál. Ég tek alveg undir það með hv. þingmönnum. Mér finnst mjög slæmt að þetta skuli hafa gerst — en það er svo auðvelt að vera vitur eftir á.