133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

þróun í fjarskiptaþjónustu eftir einkavæðingu Símans.

[14:10]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Eftir breytingar á rekstri og síðan sölu Landssíma Íslands eru ýmsir annmarkar einkavæðingarinnar að koma í ljós. Markmið þingsályktunar um stefnu í fjarskiptamálum fyrir árin 2005–2010 eru víðs fjarri og hvað varðar stóra landshluta eða hinar dreifðu byggðir virðast markmiðin vera enn fjarlægari en þingsályktunin gerir þó ráð fyrir.

Ástæðurnar eru margþættar en fákeppni, einokun og forgangsröðun verkefna í krafti markaðslögmála og arðsemiskröfur fyrirtækjanna eru helstu ástæðurnar. Það borgar sig fyrir fjarskiptafyrirtækin að einbeita sér að höfuðborgarsvæðinu og helstu þéttbýlisstöðunum. Hinar fámennari byggðir verða seint arðsamar í þjónustu.

Háhraðatengingar eru stundum nefndar þjóðvegir nútímans þar sem nær öll samskipti og þjónusta fara fram með rafrænum hætti eða eru háð rafrænum samskiptum. Háhraðatenging á öll heimili í landinu sem þess óska árið 2007, segir í fjarskiptaáætlun, og var Fjarskiptasjóði ætlað að styrkja þau svæði sem ekki teldust sterk á samkeppnismarkaði. Enn er ekki farið að úthluta úr sjóðnum í þetta verkefni og hafa sveitarstjórnir því farið þá leið að leggja sjálfar í umtalsverðan kostnað til að missa hreinlega ekki fólk og fyrirtæki út af svæðunum.

Þessu til viðbótar eykur nýleg gjaldskrá Símans misrétti milli þegna landsins þar sem hún byggir á markaðslögmálum og skiptir því landinu í misdýr gjaldsvæði. Íbúar Hafnar í Hornafirði og á Ísafirði hafa mótmælt þessu misrétti og krafist þess að Síminn veiti þá þjónustu sem greitt er fyrir og dragi til baka þá ákvörðun að skipta landinu upp í misdýr gjaldsvæði í skjóli einokunar. Aukinn kostnaður fellur því bæði á sveitarfélög og íbúa þeirra svæða sem búa við markaðsbrest.

Frá því að Síminn var seldur hefur fjöldi farsímafyrirtækja staðið í stað hér á landi og verð til neytenda hefur hækkað þveröfugt við það sem haldið var fram við einkavæðinguna og þvert á þá þróun sem er á öðrum Norðurlöndum. En til að draga úr neikvæðum áhrifum einkavæðingarinnar var komið á sérstökum Fjarskiptasjóði (Forseti hringir.) og fjarskiptaáætlun. Hver á að fylgja þeim markmiðum eftir?