133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

þróun í fjarskiptaþjónustu eftir einkavæðingu Símans.

[14:15]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Margt athyglisvert hefur komið fram í þessari umræðu. Það var t.d. athyglisvert að hæstv. samgönguráðherra fór nokkuð mörgum orðum um hversu ódýr heimasíminn væri orðinn hjá Íslendingum en vildi síðan sem fæst orð hafa um kostnað við farsíma. En bent hefur verið á að kostnaður vegna farsímanotkunar hefði vaxið gífurlega hér á landi.

Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kom síðan með aðvaranir og fór yfir viðmið sem viðhöfð höfðu verið varðandi þann samanburð sem gerður var á Norðurlöndunum. Það er auðvitað eðlilegt að einhver viðmið séu valin en séu mikil afsláttarkjör á Íslandi þá eru afsláttarkjör líka víðar og í öðrum löndum. Þegar menn gera svona samanburð þá velja menn að sjálfsögðu viðmið þannig að niðurstaðan hlýtur að vera sú að hér hafi eitthvað óeðlilegt gerst. Því er eðlilegt, eins og hæstv. ráðherra sagði, að við höfum strangt eftirlit með þeim fyrirtækjum sem á þessum markaði eru.

Frú forseti. Það var fleira sem gerðist þegar Síminn var seldur. Hæstv. ráðherra nefndi m.a. Fjarskiptasjóð sem átti að einbeita sér að því að byggja upp þjónustu í dreifbýli, stytta þann tíma sem ella tæki fyrir alla að fá háhraðatengingar og sjá til að GSM-síminn væri virkur nær alls staðar, a.m.k. á vegum úti.

Í síðustu viku þegar við þingmenn í Norðausturkjördæmi hittum sveitarstjórnir á Norðurlandi þá má segja að það hafi verið rauður þráður í gegnum öll þau viðtöl að ekkert hefði í raun gerst í þessum efnum annað en að hæstv. ráðherra hefði farið í fundaherferð um landið og skapað miklar væntingar um að nú væri þetta allt að komast í lag. En því miður, miðað við það sem sveitarstjórnarmenn sögðu okkur þingmönnum í Norðausturkjördæmi, þá virtist lítið sem ekkert hafa gerst á svæðum þessara sveitarstjórnarmanna.