133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

þróun í fjarskiptaþjónustu eftir einkavæðingu Símans.

[14:17]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv . forseti. Við markaðsvæðingu Símans var það eitt af skilyrðum okkar framsóknarmanna að ráðist yrði í miklar endurbætur á fjarskiptum í dreifbýli. Í framhaldinu var stofnaður sérstakur Fjarskiptasjóður sem varið var til 2,5 milljörðum kr. Í framhaldi af þessu er verið að ráðast í uppbyggingu fjarskipta á landsbyggðinni sem annars hefði ekki verið hægt að ráðast í nema þá með mjög mikilli skuldbindingu ríkissjóðs. (Gripið fram í: Nei.)

Hæstv. forseti. Þegar hv. stjórnarandstaðan talar um að enginn árangur hafi náðst og segir að heldur hafi þróast í hina áttina, ef eitthvað hafi verið, þá vil ég minna á það sem hæstv. ráðherra benti á áðan, að árið 2004 höfðu 20 þúsund einstaklingar í landinu ekki aðgengi að háhraðaneti. Tveimur árum síðar eru það 6 þúsund einstaklingar sem ekki hafa slíka þjónustu. Auðvitað þurfum við að koma til móts við 6 þúsund einstaklinga. En þeim Íslendingum sem hafa aðgengi að háhraðaþjónustu hefur fjölgað um 14 þúsund á tveimur árum. Svo vogar stjórnarandstaðan sér að segja að þróunin hafi verið í hina áttina, að þjónustan hafi verið skert. (Gripið fram í: Gengur of hægt.)

Það er lágmarkskrafa sem við hljótum að gera til stjórnarandstöðunnar að hún fari rétt með í málflutningi sínum á Alþingi. Ég vil benda á að í fjáraukalögum 2006 er gert ráð fyrir að setja 500 millj. kr. aukalega í Fjarskiptasjóð til að bæta þjónustuna enn frekar. Róm var ekki byggð á einum degi en það stendur til að bæta þjónustuna við alla landsmenn á þessu sviði. Við setjum mikla fjármuni í þennan málaflokk. Þetta er mikið áhersluatriði hjá okkur öllum og stjórnarandstaðan á ekki að gera lítið úr þeim fyrirætlunum sem ríkisstjórnin hefur í þessum efnum.