133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

ársreikningar.

302. mál
[14:27]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga.

Samkvæmt lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, ber þeim félögum sem falla undir gildissvið laganna að semja og senda ársreikningaskrá ársreikning sinn til opinberrar birtingar innan nánar tilgreindra tímamarka en hlutverk ársreikningaskrár er m.a. að taka á móti, geyma og birta ársreikninga skilaskyldra félaga.

Þrátt fyrir skýra lagaskyldu um skil á ársreikningi er ávallt nokkur fjöldi félaga sem hvorki semur né skilar ársreikningum til ársreikningaskrár en samkvæmt núgildandi lögum um ársreikninga telst til meiri háttar brota sú háttsemi stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra félaga sem skilaskyld eru samkvæmt lögunum að láta undir höfuð leggjast að semja ársreikning eða samstæðureikning. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem miða að því að auka skil félaga á ársreikningum til ársreikningaskrár.

Þegar upp kemur sú staða að ársreikningi er ekki skilað til ársreikningaskrár eru úrræði hennar til að bregðast við afar takmörkuð. Ársreikningaskrá getur einungis sent ítrekaðar áskoranir um skil á ársreikningi til stjórnar eða framkvæmdastjóra og ef þeim er ekki sinnt er eina úrræði ársreikningaskrár að vísa málinu til skattrannsóknarstjóra ríkisins. Skattrannsóknarstjóra ber að rannsaka hvað veldur því að ársreikningur félags er ekki lagður fram, sem leiðir til skýrslutöku hjá embættinu. Slík rannsókn getur verið nokkuð tímafrek þrátt fyrir að ástæða vanskila geti oft verið einföld.

Reynslan sýnir að í flestum tilfellum er bókhaldsóreiða ástæða fyrir vanskilum á ársreikningi til ársreikningaskrár en þá hefur ársreikningur viðkomandi félags ekki verið saminn. Einnig eru í undantekningartilfellum félög sem kjósa að leggja ekki fram ársreikning þrátt fyrir að hann hafi verið saminn. Ef ársreikningur hefur ekki verið saminn og sendur ársreikningaskrá er úrræði skattrannsóknarstjóra að senda málið til ríkislögreglustjóra, ef slík vanræksla telst vera meiri háttar brot samkvæmt lögunum, en ef vanskil á ársreikningi til ársreikningaskrár eru tilkomin vegna annarra ástæðna má vísa málinu til yfirskattanefndar til sektarmeðferðar. Þessi úrræði eru seinfarin og hafa hingað til ekki haft tilætluð áhrif.

Með frumvarpinu er lagðar til tvær breytingar. Sú fyrri snýr að því að gera greinarmun eftir stærð félagsins á alvöru þess að semja ekki eða skila ekki ársreikningi. Samkvæmt frumvarpinu teljast slík brot stjórnarmanna og framkvæmdastjóra stærri félaga áfram til meiri háttar brota en lagt er til að sams konar brot stjórnarmanna og framkvæmdastjóra minni félaga teljist ekki til meiri háttar brota en varði engu að síður viðurlögum. Með þessari aðgreiningu munu umrædd brot stjórnarmanna og framkvæmdastjóra minni félaga varða sektum sem heimilt er að leggja á félögin. Leiddar eru líkur að því að þessar breytingar geri það að verkum að rannsókn mála og álagning viðurlaga verði skilvirkari.

Síðari breytingin sem felst í frumvarpinu er að ársreikningaskrá verði veitt heimild til að leggja sektir á þau félög sem teljast til minni félaga og vanrækja að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar. Eins er lagt til að ársreikningaskrá geti lagt sektir á öll félög sem ekki skila fullnægjandi upplýsingum eða skýringum með ársreikningi eða samstæðureikningi. Gert er ráð fyrir því að þessi heimild ársreikningaskrár sé óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans, þ.e. hlutlæg ábyrgð. Verði frumvarpið að lögum er áætlað að það muni ekki leiða af sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.