133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[14:31]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, með síðari breytingum.

Þegar brunatryggingar voru gefnar frjálsar 1994 og Fasteignamati ríkisins var falið að halda brunabótamatsskrá og annast framkvæmd brunabótamats var sérstakt umsýslugjald tekið upp. Nam gjaldið 0,025‰ (prómillum) af brunabótamati hverrar húseignar og rann til stofnunarinnar til að standa undir kostnaði hennar við að halda skrá yfir brunabótamat húseigna. Við setningu laga um Landskrá fasteigna haustið 1999 var ákveðið að umsýslugjald til Fasteignamats ríkisins yrði hækkað úr 0,025 ‰ í 0,1 ‰ vegna gerðar hinnar nýju Landskrár fasteigna. Við meðferð frumvarpsins á Alþingi var gert ráð fyrir að gerð skrárinnar tæki um fjögur ár og skyldi það koma í hlut eigenda fasteigna að greiða fyrir gerð hennar. Af þessum sökum var ákveðið að gjaldið skyldi falla niður í árslok 2004 og eftir það yrðu tekjustofnar stofnunarinnar skoðaðir upp á nýtt.

Þegar leið að framangreindri tímasetningu varð ljóst að umræddu takmarki yrði ekki náð innan fjögurra ára, m.a. vegna mun meira misræmis í skránni en gert var ráð fyrir í upphafi.

Haustið 2004 var lagt fram frumvarp fjármálaráðherra þar sem gert var ráð fyrir að innheimta umsýslugjaldsins yrði framlengd enn um sinn. Efnahags- og viðskiptanefnd taldi að leita yrði leiða til að takmarka þann kostnað við verkið sem fasteignaeigendur bæru einir og lagði því til að umsýslugjaldið yrði einungis innheimt með þessum hætti í tvö ár til viðbótar. Eftir það skyldi tekna aflað með öðrum hætti.

Ljóst er að á síðustu árum hefur mikilvægi fasteignamats fyrir ríkið breyst umtalsvert frá því gerð Landskrárinnar hófst, m.a. með því að eignarskattar hafa verið aflagðir og fasteignamat er því ekki nema að litlu leyti stofn til skattheimtu ríkisins. Að sama skapi má segja að gildi fasteignamats og Landskrár fasteigna hafi aukist til mikilla muna fyrir sveitarfélögin í landinu, enda fasteignamat gjaldstofn til innheimtu fasteignaskatta, auk þess sem þjónusta við sveitarfélög hefur verið efld á þann hátt að álagning fasteignaskatta og fasteignagjalda fer fram í Landskránni frá 1. janúar 2007. Sveitarfélögin munu þá jafnframt leggja af sérstakar álagningarskrár.

Í tengslum við nauðsynlega heildarendurskoðun á fjármögnun Landskrár fasteigna hefur fjármálaráðuneytið skipað starfshóp fulltrúa ráðuneyta og hagsmunaaðila í því skyni að fara heildstætt yfir helstu kosti og galla núverandi tilhögunar í fasteignaskráningu hvað varðar fasteigna- og brunabótamat og leggja mat á það hvort ástæða sé til að breyta í einhverju núverandi skipan þessara mála. Starfshópurinn er skipaður fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, Sambands íslenskra tryggingafélaga, dóms- og kirkjumálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis.

Þrátt fyrir að stefnt sé að því að niðurstöður starfshópsins liggi fyrir eins fljótt og kostur er þykir rétt, með hliðsjón af umfangi starfsins og því að starfshópurinn hefur nýlega verið skipaður, að leggja til að núverandi fjármögnun Fasteignamats ríkisins verði framlengd enn um sinn til tveggja ára. Þegar niðurstöður starfshópsins liggja fyrir mun ráðuneytið gera tillögur um þær breytingar sem nauðsynlegt verður talið að gera á lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, þar á meðal varðandi heildarfjármögnun stofnunarinnar til framtíðar.

Frú forseti. Þetta eru meginatriði frumvarpsins. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.