133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[14:34]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál er allt með ólíkindum, finnst mér. Hér er verið að viðhalda áfram skatti sem samkvæmt lögum, sem samþykkt voru árið 2000, átti bara að vera í fjögur ár. Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er mér ósammála um að þetta sé skattur en það er það orð sem ég gef þessu.

Það sem mér finnst þó ekki síður ámælisvert er að hér er hæstv. ríkisstjórn beinlínis að fara gegn vilja þingsins, því að fyrir tveimur árum var samþykkt frumvarp, að tilstuðlan efnahags- og viðskiptanefndar, um að þessu gjaldi yrði ekki fram haldið nema í tvö ár. Það voru beinlínis fyrirmæli af þingsins hálfu að að þeim tíma loknum yrði með einhverjum hætti fundinn annar gjaldstofn. Þetta sagði þingið þá.

Nú kemur hæstv. ráðherra og lætur eins og ekkert hafi í skorist. Tekur ekkert mark á því sem þingið sagði undir forustu hv. þm. Péturs Blöndals og rembist bara eins og rjúpan við staurinn til að taka upp það sem þingið hafnaði.

Með ólíkindum er líka hversu umfang þessa verks hefur aukist. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvað áætluðu menn að verkið mundi nema að heildarkostnaði þegar þeir lögðu upp í þetta ferðalag árið 2000?