133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[14:44]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni gamall kunningi eins og komið hefur fram við umræðuna, m.a. í andsvörum við ræðu hæstv. ráðherra. Ég get tekið undir það að þetta mál er allt með ólíkindum hvernig sem á það er litið. Við sem höfum fjallað um það í efnahags- og viðskiptanefnd þekkjum auðvitað forsögu þess og hvað það er umdeilt, ekki bara það að stjórnarandstaðan hafi verið á móti því á sínum tíma heldur hefur þetta mál verið gagnrýnt líka í röðum stjórnarliða sem best sést á því að málið hlaut ekki afgreiðslu fyrir tveimur árum með þeim vilja sem hæstv. þáverandi fjármálaráðherra vildi, þ.e. að framlengja þetta gjald um fjögur ár heldur var því breytt í meðferð þingsins þannig að það framlengdist aðeins um tvö ár.

Forsaga þessarar gjaldtöku er sú að á 125. löggjafarþingi lagði fjármálaráðherra fram frumvarp sem fól í sér að fasteignaeigendur yrðu látnir bera kostnaðinn við að koma á einu samhæfðu gagna- og upplýsingakerfi um fasteignir og réttindi sem þeim tengdust. Þetta umsýslugjald sem rennur til Fasteignamats ríkisins hækkaði við þessa breytingu úr 0,025 í 0,1 prómill af brunabótamati hverrar húseignar. Þegar við ræddum þetta mál í efnahags- og viðskiptanefnd fórum við yfir það hvort eðlilegt væri að fasteignaeigendur einir og sér bæru þetta umsýslugjald og kostnað við að koma á þessari Landskrá fasteigna. Margir umsagnaraðilar sem sendu umsögn um þetta mál til efnahags- og viðskiptanefndar gagnrýndu einmitt að það væru fasteignaeigendur sem ættu að bera kostnaðinn við þessa breytingu. Í nefndaráliti sem við fulltrúar Samfylkingarinnar skiluðum var lagt til að mótmæla þessu harðlega og lögðumst við gegn þessu gjaldi. Það er athyglisvert að áheyrnarfulltrúi sem þá sat fund nefndarinnar, Gunnar Örlygsson, sem nú er í Sjálfstæðisflokknum var sammála því áliti þar sem mjög mikil gagnrýni kom fram hjá okkur á þessa gjaldtöku.

Umsagnaraðilar sem fjölluðu um þetta mál töldu það orka mjög tvímælis að húseigendum væri einum gert að greiða kostnaðinn af stofnun Landskrár fasteigna en eigendur lóða, jarða, hlunninda og ítaka hvers konar sem virt eru til fasteignamats yrðu hins vegar undanþegnir þessu gjaldi. Það kom einnig fram að færa mætti rök fyrir því að Landskráin hefði svo almennt gildi í þjóðfélaginu að eðlilegt væri að fjármagna hana með skatttekjum ríkissjóðs fremur en að hækka umsýslugjaldið. Fjölmargir aðilar nýta upplýsingar Fasteignamatsins, svo sem tryggingafélög, álagningardeildir sveitarfélaga, byggingarfulltrúar við þinglýsingar, stórar lánastofnanir og fleiri. Því er fullkomlega óeðlilegt, virðulegi forseti, að fasteignaeigendur skuli einir og sér þurfa að bera uppi kostnaðinn af stofnun Landskrár með háu umsýslugjaldi sem er innifalið í brunatryggingum fasteigna en vátryggingarfélögin innheimta það með iðgjöldum af brunatryggingum.

Auðvitað er það rétt sem hér hefur komið fram, t.d. hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, að kostnaður við að koma á fót þessari Landskrá hefur farið úr öllum böndum. Ég get vel tekið undir það með hv. 5. þm. Norðvest. Guðjóni A. Kristjánssyni að það flögrar auðvitað að manni að það sé eðlilegt að Ríkisendurskoðun fari yfir þann kostnað sem er orðinn af því að koma henni upp. Kostnaðurinn hefur fjórfaldast. Það var lagt upp með það árið 2000 þegar við fyrst fengum þetta mál í þingið að stofn- og rekstrarkostnaður Landskrár fasteigna yrði á fjórum árum um 615 millj., þ.e. 150 millj. á hverju ári, og þegar Landskráin væri tilbúin ætti árlegur rekstrarkostnaður að vera um 100 millj. Á árunum 2000–2004 hefur umsýslugjaldið skilað 950 millj. í tekjur til Fasteignamatsins og síðan bættust við tekjur vegna framlengingarinnar í tvö ár í viðbót. Það er búið að leggja í þetta óhemju peninga og langt umfram alla kostnaðaráætlun. Það hefur verið kallað eftir því að farið yrði ofan í kostnaðinn sem lagt er upp með í verkefnum tengdum ríkinu þó að umfangið hafi aukist minna en við sjáum hér þar sem um fjórföldun á kostnaði er að ræða.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hann ekki eðlilegt að hlutlausum aðila verði falið að fara ofan í þann mikla kostnað sem er á þessu verki, 2,4 milljarðar, og fasteignaeigendur einir og sér eiga að bera? Ég hefði haldið að nógir pinklar væru settir á fasteignaeigendur af hálfu ríkisins þó að þessu væri ekki bætt við. Á 131. löggjafarþingi fyrir tveimur árum var á það bent að lauslegt mat á gjöldum sem ríkissjóður hefði af fasteignaeigendum væri um 8 milljarðar. Þar vógu stimpilgjöldin langmest og nú hafa þau margfaldast á umliðnum árum þannig að það er ekkert smáræði sem ríkissjóður hefur af fasteignaeigendum þó að ekki sé verið að leggja þetta gjald á og framlengja það sífellt. Þetta virðist vera eitthvert eilífðargjald sem fasteignaeigendur eiga að bera.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til skoðunar að aðrir aðilar bæru þetta gjald, t.d. ríkissjóður eða aðrir aðilar sem nýta sér fasteignaskrána eins og ég nefndi, sveitarfélögin, byggingarfulltrúar, lánastofnanir, tryggingafélög og fleiri. Þetta kom einmitt til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd á sínum tíma. Það er auðvitað með endemum að fyrst nú, þegar þetta gjald er að renna út um nk. áramót, bregðist ráðherra við, skipi nefndina og skoði framtíðarfjármögnun á þessu. Af hverju í ósköpunum var ekki framtíðarfjármögnunin skoðuð fyrr? Af hverju var málið heldur látið drabbast með þeim hætti sem hér hefur verið gert? Síðan er farið í sama farið aftur og fasteignaeigendur látnir sitja uppi með kostnaðinn af þessu.

Þetta vildi ég sagt hafa við 1. umr. þessa máls. Það eru auðvitað margar athugasemdir sem vakna þegar maður fer yfir þennan gamla kunningja aftur. Ég mun auðvitað ræða það í efnahags- og viðskiptanefnd en ég tel að hæstv. ráðherra verði að svara ákveðnum fyrirspurnum til að auðvelda umfjöllun málsins í nefndinni, í fyrsta lagi hvort hann telji ekki ástæðu til að hlutlaus aðili fari ofan í þennan kostnað. Hefur ráðherra gert ráðstafanir til þess að svo verði gert þar sem um er að ræða fjórföldun á upphaflegri kostnaðaráætlun? Kom aldrei til greina að aðrir en fasteignaeigendur bæru þessar byrðar? Það er auðvitað rökrétt þegar svona margir aðilar nýta sér fasteignaskrána.

Ég mótmæli því að málið skuli enn og aftur koma inn til þingsins með þessum hætti og það er á margan hátt hægt að taka undir það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði, efnahags- og viðskiptanefnd og þingið samþykktu að þessi framlenging sem þá var í annað sinn, þegar við fengum þetta fyrir tveim árum, ætti ekki að gilda í fjögur ár heldur einungis í tvö ár og að þann tíma ætti að nýta til að finna framtíðarfjármögnun á þessu verkefni. Þann tíma hefur framkvæmdarvaldið ekki nýtt. Auðvitað hljótum við á löggjafarsamkundunni að mótmæla þeim vinnubrögðum hjá framkvæmdarvaldinu að hundsa algerlega vilja Alþingis í þessu efni, bæði að því er varðar að fara strax ofan í þetta mál til að skoða framtíðarfjármögnun og að enn og aftur skuli málið bera að inni í þinginu með þeim hætti sem hér er gert, að fasteignaeigendur eigi að borga brúsann af öllu saman. Nægir pinklar eru lagðir á fasteignaeigendur þótt þetta gjald sé ekki eina ferðina enn lagt á þá.