133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[14:55]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hæstv. fjármálaráðherra erum auðvitað fullkomlega ósammála um það hvernig eigi að standa að þessu. Við erum að leggja næstu tvö árin pinkla á fasteignaeigendur upp á 650 millj. kr., og munar um minna. Maður spyr, miðað við forsögu þess máls: Af hverju þarf þessi nefnd svona langan tíma til að fara ofan í þetta mál og skoða hvernig fjármögnun á þessu skuli háttað? Af hverju nægja ekki þessari nefnd nokkrir mánuðir til þess þannig að ekki þurfi að framlengja þetta gjald um eitt ár? Það er óheyrilega rýmilegur tími sem nefndinni er ætlaður til að skoða málið.

Ég nefndi áðan ýmsa aðila sem ég tel að ættu frekar að bera þessa pinkla en fasteignaeigendur einir og sér. Eins og ég nefndi eru m.a. eigendur lóða, jarða, hlunninda og ítaka hvers konar sem virt eru til fasteignamats undanþegnir þessu gjaldi og síðan ýmsir aðilar eins og sveitarfélögin, tryggingafélögin og fleiri sem nýta sér fasteignaskrána. Þetta hefði ekki verið mjög erfitt verkefni fyrir hæstv. fjármálaráðherra ef vilji hefði verið fyrir hendi að taka þannig á þessum málum að fasteignaeigendur bæru þetta ekki einir og sér.

Hæstv. ráðherra tekur undir og gerir engar athugasemdir við það að Ríkisendurskoðun fari ofan í og skoði þetta mál en ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann tilbúinn að beina því til Ríkisendurskoðunar að hún fari ofan í þetta mál og skoði það sérstaklega? Ég veit ekki hvort Ríkisendurskoðun er kunnugt um það nákvæmlega að kostnaðurinn við þetta verk hefur aukist fjórfalt meira en áætlað var í upphafi, farið úr 615 millj. í 2,4 milljarða sem er ansi mikil framúrkeyrsla á kostnaðaráætlun. Það er full ástæða fyrir Ríkisendurskoðun að skoða þetta mál. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann tilbúinn til þess sjálfur að beina því til Ríkisendurskoðunar að hún skoði (Forseti hringir.) kostnaðinn við þetta verkefni?