133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[15:46]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra býður hér að fyrir nefndina verði lögð skilagrein um það með hvaða hætti kostnaður skiptist á rekstur og stofnkostnað. Ég fagna því, ég tel að það sé algjör forsenda fyrir því að hægt sé að ljúka þessu máli. Ég fagna því líka af annarri ástæðu. Ég er nokkuð kvíðafullur yfir því að það sé hugsanlegt að þetta gjald verði framlengt til eilífðar. Sá kvíði stafar af þeim upplýsingum sem komu fram áðan hjá hv. þm. Ástu Möller og ég hef áður rakið þær. Hún greindi frá því að einungis 7% verkanna sem áætlað er að eigi eftir að ljúka í þessu verkefni séu greinilega það mikil að vöxtum að til þeirra þurfi að kosta fjórðungi af heildarkostnaði verksins. Ég hef náttúrlega enga trú á því að þær tölur standist, ekki hjá hv. þingmanni, heldur held ég að það séu engin rök fyrir því. Þess vegna óttast ég að rekstur þessa verks sé einfaldlega orðinn það dýr og umfangsmikill að það sé hann sem geri það að verkum að nauðsynlegt sé að framlengja þessu bixi ár eftir ár. Ég held með öðrum orðum að hér sé búið að búa til ríkisstofnun sem kosti það mikið að menn verði að innheimta þessi hundruð milljóna árlega af húseigendum til að standa straum af henni. Gott fyrir kapítalismann, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal, en mér er til efs að þetta hafi ráðið úrslitum um framvindu markaðsbúskapar á Íslandi.