133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[16:21]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að í Brasilíu er notaður orkugjafi, etanól, unninn úr sykurreyr og þar að baki liggur áratuga þróunarstarf, það er staðreynd. Og án þess að ég vilji fara í einhvern meting við hv. þingmann þá var það starf hafið löngu löngu áður en Lula komst í forsæti í Brasilíu.

Ég held að við séum efnislega sammála, ég og hv. þingmaður, um hvert við eigum að reyna að stefna í þessum efnum þótt okkur greini kannski að einhverju leyti á um hver hraðinn geti orðið. Hins vegar verð ég að viðurkenna að það eru eiginlega öll vopn slegin úr höndunum á manni þegar manni er ráðlagt að taka sér Arnold Schwarzenegger, tortímandann og repúblikanann sér til fyrirmyndar af hv. þingmanni.