133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[16:23]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ástæða þess að ég tek tortímandann og dreg hann inn í þessa umræðu til þess að reyna að vekja hæstv. fjármálaráðherra af svefni sínum í þessu máli er auðvitað sú að ég vík öllum flokkslegum hagsmunum frá og til hliðar þegar um er að ræða svona grundvallaratriði. Ég tel að þau vandamál sem við er að glíma og stafa af losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda séu svo risavaxin að þjóðir heims verði að taka höndum saman til að ráða niðurlögum þessa vanda. Ég vísa þess vegna jafnt til samfylkingarmannsins Lula í Brasilíu og sjálfstæðismannsins Arnolds Schwarzeneggers, tortímandans í Kaliforníu. Mér er alveg sama hvorn þeirra hæstv. fjármálaráðherra kýs að taka sér til eftirdæmis. Ég tek þá báða í þessum efnum. Tortímandinn á glæstan feril hvað varðar umhverfismál í Kaliforníu og það er ástæðan fyrir því að hann hélt velli á meðan flokksbræðrum hans og systrum var meira og minna vikið til hliðar af ýmsum ástæðum sem ég ætla ekki að fara út í hér.

Það er staðreynd að ekkert ríki í heiminum hefur gengið jafnlangt og Kalifornía og ég leyfi mér að kalla það ríki. Það er eitthvert umfangsmesta efnahagsstórveldi í heiminum þótt það sé innan vébanda Bandaríkjanna. Ekkert ríki hefur á síðasta áratug farið jafnlangt og menn hafa gert í Kaliforníu þar sem menn hafa í senn sett tálmandi lög en líka lög um efnahagslegan hvata sem ganga og ég tel að séu miklu meiri möguleikar í þessum efnum en menn telja. Ég vísaði í fyrri ræðu minni til stórra bílaframleiðenda eins og Toyota sem hefur með nýrri tækni, Priusbílnum sínum þar sem menn eru að blanda saman gamalli tækni og nýrri, leyst til stórkostlegra markmiða og þeir eru á góðri leið með að ná þeim og þeir hafa sett sér þetta markmið að framleiða bíl sem sleppir engu kolefni út. Það skiptir máli. Það eru háleit markmið. Og hæstv. ráðherra á að taka undir með svona framsýnum fyrirtækjum.