133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[17:06]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vinnsla á metangasi fer fram við urðun á sorpi. Það er drýgsta framleiðslan á metangasi. Ég tel að Reykvíkingar þekki mjög vel þá framleiðslu, sem fer fram með miklum myndarskap hjá Sorpu, og notuð er á almenningssamgöngutæki í Reykjavík. Ekki á alla vagna, því miður, en þeim fer fjölgandi. Þetta er til fyrirmyndar.

Metangas er hægt að framleiða á hverjum einasta sorphaug í landinu. Það er mikið sem fellur til og metangas á stóran þátt í eyðingu ósonlagsins með öðrum lofttegundum.

Hvað varðar þá spurningu hv. þingmanns hvort hér sé um nýja stefnu að ræða hjá Vinstri grænum varðandi endurnýjanlega orkugjafa þá er alls ekki svo. Ég get ekki séð að það sé einhver réttlæting í því fyrir okkur að taka við stóriðnaði í álframleiðslu sem fram fer víða um heim þar sem fallvötn eru nægileg til að framleiða orku fyrir slíka stóriðju. En þegar verið er að loka álfyrirtækjum m.a. í nágrannalandi okkar Noregi, sem notar fallvötnin og vatnsorkuna til þess að framleiða rafmagn, og menn ætla sér að flytja þá framleiðslu hingað af því að við seljum orkuna okkar á spottprís og höfum ekki áhyggjur af umhverfinu, þá (Forseti hringir.) sé ég ekki að við séum betur sett með það.