133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

374. mál
[17:54]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ávöxtunin sem lífeyrissjóðirnir eiga að sækjast eftir er auðvitað tengd áhættunni sem felst í fjárfestingunni og að öllu jöfnu er minnsta áhættan fólgin í því að eiga ríkistryggð bréf, og í þessu tilfelli er verið að tryggja að þau bréf sem sjóðurinn á séu eins örugg og hugsast getur og þá væntanlega á vöxtum sem eru í samræmi við að vera þeir vextir á hverjum tíma sem greiddir eru af ríkistryggðum bréfum.

Varðandi síðari spurninguna um örorkubyrðina og samkomulag ríkisins við aðila vinnumarkaðarins þá hefur ekki verið gert neitt frekara samkomulag en gert var í fyrra um þátttöku ríkissjóðs í því að létta af örorkubyrðinni og síðan sú vinna sem átti að fara fram í framhaldi af þeirri samþykkt varðandi endurhæfingu og aðstoð við öryrkja til að eiga afturkvæmt út á vinnumarkaðinn. Ég geri hins vegar ráð fyrir því að flytja áður en langt um líður frumvarp í samræmi við þetta samkomulag við Alþýðusambandið. Þar af leiðandi er ekki tímabært að fara nánar út í það en hins vegar er samkomulagið mjög skýrt um það hversu miklar greiðslur eigi að vera á næstu árum.