133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

374. mál
[17:58]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast ekki við að það sé 19% ávöxtun á ríkistryggðum bréfum. Þau bréf sem hv. þm. var að vísa til sérstaklega eru ríkistryggð bréf og þau eru með breytilegum vöxtum miðað við þá vexti sem á hverjum tíma eru greiddir af ríkisverðbréfum, það eru þá hámarksvextir á lágmarksáhættu hvers tíma, þannig að það er engin spurning um það hvernig það á að vera á hverjum tíma, það er tiltekið nákvæmlega. Þeir sem fá 19% ávöxtun fá hana á einhverjum allt, allt öðrum forsendum en ríkisbréf eru gefin út á og því er ekki hægt að vera í neinum samanburði þar á milli, hvað þá að tala um einhvern mismun þar á milli. Þetta eru alls ekki samanburðarhæfir pappírar sem hv. þingmaður er að tala um.