133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

374. mál
[18:02]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Hér kom fram reginmisskilningur í máli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar. Ríkissjóður átti ekki viðskipti við lífeyrissjóðina eins og hann sagði. Ríkissjóður var í viðskiptum við Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ sem eru bakábyrgðaraðilar þessara sjóða. Þeim var greitt með ríkistryggðum skuldabréfum á ákveðnum kjörum. Sveitarfélögin leggja síðan þau bréf inn sem eiginfjárframlag, ef hægt er að komast svo að orði, í lífeyrissjóðina.

Ríkissjóður ábyrgist ekki eitt eða neitt fyrir lífeyrissjóðina með þessum viðskiptum. Að bæta upp einhvern mismun á annars konar markaðsbréfum með ávöxtun sem aldrei mundi fást á ríkisbréfum er bara ekki inni í þessari mynd. Það er eiginlega ekki hægt að svara spurningunni út frá þeim forsendum sem hv. þingmaður gaf sér. Ég er að reyna að skýra að spurningin er eiginlega ekki í samhengi við stöðu þessara mála.