133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

afnám verðtryggingar lána.

10. mál
[18:13]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta mál með verðtryggingu lána hefur að sjálfsögðu á sér margar hliðar, eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson rakti. Sú tillaga sem lögð er fram lýtur að verðtryggingu húsnæðislána. Ég held að það sé alveg tímabært að skoða hlut og beitingu verðtryggingar í fjármálaviðskiptum, í kaupum á fasteignum og í lántökum.

Verðtrygging hefur sína kosti eins og við vitum. Hún tryggir rétt bæði lánveitenda og lántaka í sjálfu sér gagnvart verðþróun í landinu og hefur vafalaust verið mikilvæg í mörgum tilvikum. Hins vegar er hún líka runnin frá þeim tíma þegar meginhlutinn af fjármálakerfinu, bönkunum, var í ríkiseigu og Íbúðalánasjóður þá kannski í enn ríkari mæli félagsleg lánastofnun. Þá var verðtryggingin í sjálfu sér bara hluti af þeim sáttmála, þannig að ríkið var að stórum hluta ábyrgt fyrir þróun á lánamarkaðnum og meira ábyrgt fyrir kjörum hins almenna borgara.

Á þessu hefur orðið gjörbreyting í sjálfu sér. Fjármálamarkaðurinn er orðinn einkavæddur og lifir þess vegna í eigin heimi. Ekki er ríkisábyrgð með þeim hætti sem áður var á fjármálastofnunum. Beitingu verðtryggingar hlýtur því líka að þurfa að endurskoða.

Ég held að verðtryggingin sé og geti verið nauðsynleg á langtímalánum og í viðskiptum með húsnæði. Maður hlýtur samt að setja spurningarmerki við það þegar langtímalán, 20, 30, 40 ára lán eru bæði verðtryggð og líka með háum vöxtum. Verðtryggingin ætti að tryggja, eins og lán til íbúðalána, að þau héldu gildi sínu. En þá ættu vextir jafnframt að vera mjög lágir. Vextir af húsnæðislánum umfram 2,5% og 3% finnst mér vera óeðlilegir af verðtryggðum lánum í húsnæðiskaupum, ef ég segi alveg eins og er. Þá eru menn komnir yfir á einhverja aðra braut. Því er alveg ástæða til að skoða þessi mál.

Fólki er lofað ákveðnum verðbólgumörkum. Við höfum stýritæki eins og ríkisstjórn og Seðlabanka sem lofar að ábyrgjast að verðbólgan fari ekki upp fyrir einhver ákveðin mörk, 2,5% með smávikmörkum. Það eru í rauninni loforð sem almenningi eru gefin. Hver á síðan að bera ábyrgðina á því þegar ríkisstjórnin rekur slíka efnahags- og atvinnustefnu að þetta springur? Stýritæki Seðlabankans upp á að halda verðbólgunni innan þessara marka virka ekki. Það eina sem hann hefur er að keyra vaxtastigið upp og auka þannig enn á greiðslubyrði lántakenda. En ríkisstjórnin, sem í rauninni ber ábyrgð á þenslunni og á því að verðbólgan rýkur upp, er stikkfrí. Og almenningur sem hélt að eitthvað væri að marka þessi loforð verður þá að axla þungann af verðtryggðum lánum í verðbólgu með háum vöxtum. Svona lagað gengur ekki upp.

Þessi sjálftökuréttur ríkisvalds og fjármálastofnana hvað þetta varðar finnst mér vera umhugsunarefni. Það á draga þá til ábyrgðar sem bera ábyrgð á verðbólgunni, og það er ríkisstjórnin. Ef ekki væri þessi þensla eða þessi stóriðjustefna hefði ekki verið með tilheyrandi afleiðingum, þá værum við ekki með þessa verðbólgu. Við vitum það.

Það voru allir sem vöruðu við þessu. Seðlabankinn varaði við því að hann hefði ekki stýritæki til að ráða við slíka stóriðjuþenslu. Hann lýsti því yfir. Og skattalækkun samtímis. Hann sagði fyrir um afleiðingarnar. Við hér, að minnsta kosti þingmenn Vinstri grænna, sögðum til um afleiðingarnar, að verðbólgan mundi rjúka upp þrátt fyrir að almenningi hefði verið lofað að hún mundi ekki gera það.

Með svo óábyrg stjórnvöld gagnvart almenningi í landinu, sem lýtur m.a. að verðtryggingu lána, er þetta umhugsunarefni. Ég get þess vegna vel tekið undir að það megi alveg fara að endurskoða hvernig hag almennings sé best borgið hvað lýtur að verðtryggingu og öryggi almennings. Ég er ekki þar með að segja að leggja eigi til að hún sé í sjálfu sér afnumin því það er miklu flóknara mál, en farið sé í gegnum þessi mál og þau endurskoðuð með hag almennings fyrir brjósti. Það finnst mér vel tímabært.