133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

afnám verðtryggingar lána.

10. mál
[18:33]
Hlusta

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nokkuð hissa á ræðu hv. þingmanns, að hann sjái ekki að þessi hreina skuldaaukning hjá bönkunum, sem svarar til 1.100 milljarða á tveimur árum, gengur ekki og menn eiga að velta því fyrir sér hvernig á þessu stendur. Ein ástæðan fyrir þessu er verðtryggingin, að ég tel, og ekki bara ég heldur margir sérfræðingar sem hafa tjáð sig um efnahagsmál. Menn bera lánsfé inn í landið vegna þess að þeir geta lánað það út verðtryggt aftur og þar með tryggt það fyrir breytingum á gengi íslensku krónunnar. Ég er ekki viss um að þetta sé gæfuleg leið fyrir íslenskt efnahagslíf.

Ef menn vilja skoða það í alvöru að íslenskt lánakerfi verði með svipuðum hætti og erlendis, getur þessi þingsályktunartillaga orðið til þess og að við sjáum að aðgerðir Seðlabankans fari að virka. Staðreyndin er sú að 14% stýrivextir Seðlabankans virðast ekkert slá á þensluna. Það er áhyggjuefni og það er vegna þess að stýrivextirnir virka bara á yfirdráttarlánin, alls ekki á verðtryggðu lánin sem er massinn af lánunum. Hv. þingmaður ætti að taka þetta til athugunar og ég vona svo sannarlega að hann verði jákvæðari í garð þeirrar umræðu sem þarf að fara fram um lánamarkaðinn en raun ber vitni og hvernig við ætlum að haga lánafyrirkomulagi í framtíðinni. Ég er á því að opin umræða um þessi mál þurfi að fara fram og auðvitað þurfum við líka að skoða hag eigenda skuldanna, lífeyrissjóðanna. Það þurfa (Forseti hringir.) fleiri að koma inn í þessa umræðu.