133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

afnám verðtryggingar lána.

10. mál
[18:46]
Hlusta

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Vegna þess að því var haldið fram hér af einum hv. þingmanni að skuldaaukning bankanna stafaði af því að bankarnir hefðu yfirtekið að einhverju leyti skuldbindingar Íbúðalánasjóðs þá finnst mér rétt í lokin á þessari umræðu að taka það fram að það er af og frá að það skýri alla þessa skuldaaukningu sem er upp á annað þúsund milljarða frá árinu 2004 til júní þessa árs. Það er ekki hægt að skýra það með því. Það sést best á því að hrein staða Íslands við útlönd á þessum stutta tíma hefur versnað um 600 milljarða kr. Skýringanna er því miklu frekar að leita í þeirri eignaverðbólgu sem hefur verið og því að innlánsstofnanir hafa verið að bera inn lánsfé á lægri vöxtum og endurlána hér. Það er vissulega áhyggjuefni að það sé ekki meiri hvati en raun ber vitni til sparnaðar í þjóðfélaginu. Við sjáum þetta bara á auglýsingum bankanna. Hvað ganga þær út á? Þær ganga út á að auglýsa yfirdráttarlán sem eru með yfir 20% vöxtum. Þetta er áhyggjuefni, þ.e. að það sé kannski verið að auglýsa að það sé 1% eða 2% ódýrara að taka lán fyrir viðkomandi skuldara en þá eru menn jafnvel að tala um 20%–23% vexti sem er alveg gríðarlegt.

Þetta er áhyggjuefni og ég er viss um að þessi umræða bæði um vexti og verðtryggingu á eftir að verða þyngri og sér í lagi ef ríkisstjórnin ætlar ekki að ráða neitt við verðbólguna. Það er náttúrlega stórundarlegt að dæmið sé sett upp með þeim hætti að ekki sé hægt að breyta þessari verðtryggingu vegna þess að þá muni vextir verða yfir 10%. Það er eins og menn ætli bara að búa sig undir það að kveða ekkert niður verðbólguna, að þetta eigi að vera viðvarandi ástand. Því höfnum við algjörlega í Frjálslynda flokknum að menn horfi svo til framtíðar að hér verði 8–9% verðbólga. Það er alveg ótrúleg framtíðarsýn sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins virðast bera hér á borð, þ.e. að þetta ástand verði til framtíðar. Þetta hlýtur að vera tímabundið ástand sem menn ætla að takast á við í raun. (Gripið fram í.)