133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

afnám verðtryggingar lána.

10. mál
[18:49]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins koma inn í þessa umræðu. Hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan að ef ekki væri verðtrygging þá yrðu fjárskuldbindingar þess vegna með 12% vöxtum. (Gripið fram í: Eitt ár.) Ha? (Gripið fram í: Eitt ár.) Eitt ár, 12% vöxtum.

Nú er það svo, hæstv. forseti, að viðskiptakjör bankastofnana eru með ýmsu lagi. Ég vænti þess að ef það verður niðurstaða af skoðun þessa máls að rétt sé að stefna að því að afnema verðtrygginguna þá muni starfsemi fjármálastofnana auðvitað breytast sem því nemur, þ.e. menn taka þá mið af því að verðtrygging sé ekki til staðar. Væntanlega setja þeir þá einhver ákvæði um að hugsanlega megi skoða vexti á lánstímanum miðað við einhverjar tilteknar forsendur. Ég held einnig að þeir sem leggja inn sparifé muni að sjálfsögðu gera kröfu til þess að verðskuldbindingar gagnvart þeim verði líka með þeim hætti að til komi frekari útfærsla á því hvernig menn vilja tryggja fé sitt. Nú hafa menn getað gert það svo sem með ýmsum hætti, með kaupum á hlutabréfum og kaupum á gjaldeyri, með gjaldeyristryggðum reikningum og allt það. Menn hafa auðvitað spáð í það fram og til baka.

Hæstv. forseti. Ég hygg að ef við leggjum saman í dag vexti á húsnæðislánum, sem ég hygg að leiki svona á bilinu frá 4,15% þegar þeir voru lægstir og upp í 6% vexti sennilega, og setjum síðan verðtrygginguna ofan á það miðað við núverandi verðbólgu þá séum við komin upp fyrir þau 12% sem hv. þingmaður vék að miðað við eitt ár. Það er auðvitað þannig að verðtryggingaþátturinn dreifist á lánið á lánstímanum. Hins vegar segir ekkert, hv. þm. Pétur Blöndal — jafnsnjall og vel gefinn og þú ert — að bankar geti ekki samið um að dreifa kostnaði ef hann fer yfir eitthvað ákveðið. (Gripið fram í.) Nei, ég er bara að benda á það. Ég meina þú settir þetta upp eins og að bankar hefðu engin tækifæri. Bæði bankar og launþegar hafa tækifæri og lántakendur og sparisjóðurinn, lífeyrissjóðir og aðrir slíkir. Í nágrannalöndum okkar eru lánskjör einmitt breytileg.

Með þessari þingsályktunartillögu bendum við einfaldlega á að við teljum að þetta mál eigi að fara í gaumgæfilega skoðun, að menn eigi að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að afnema verðtrygginguna þannig að við stefnum þá til þess að vera með svipað fyrirkomulag hér og er í nágrannalöndum okkar. Út á það gengur nú þessi tillaga, hæstv. forseti.

Mér fannst bara á framsetningu hv. þm. Péturs Blöndals að málið væri sett þannig upp af hans hálfu að það væri bara hægt að hafa hærri vexti og þá skipti það máli á afborgunum eins árs, en ef menn væru með verðtryggingu vegna verðbólgu, að þá væri hægt að dreifa verðtryggingu á lánstíma í lánasamningum. Auðvitað er ekki svo. Samningar geta verið með ýmsu móti hvort sem um er að ræða vexti án verðtryggingar dreift á lánstímann eða lán með verðtryggingu.

(Forseti (JóhS): Forseti vill að gefnu tilefni minna hv. þingmann á að hann á að beina orðum sínum að forseta en ekki beint að þingmönnum úti í sal.)