133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

stjórnarskipunarlög.

12. mál
[19:32]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get sagt það strax að bæði 1. gr. og 3. gr. frumvarpsins fellur mér ágætlega í geð og við samfylkingarmenn höfum reyndar talað fyrir þessum breytingum.

Hvað 2. gr. varðar er samstaðan um málið ekki jafnmikil. Ég fyrir mitt leyti tel að það þurfi góða umræðu og kannski betri rökstuðning en fram hefur komið, að ráðherrar megi ekki vera þingmenn og eigi ekki að vera þingmenn. Nú er þetta heimilt en þarna er verið að gera ráð fyrir að það verði ekki heimilt.

Í fyrsta lagi mundi það þýða að stækka þyrfti þingsalinn eitthvað því ég geri ráð fyrir að ráðherrar þyrftu að hafa möguleika á að sitja þingfundi, þó svo þeir hefðu ekki atkvæðisrétt á þingfundunum. Það þyrfti að vera hægt að gera ráð fyrir þeim öllum í þingsalnum. Það er nú eitt af því sem þyrfti að skoða.

Hitt þykir mér öllu verra, að ef maður setur þetta í það samhengi sem kannski eðlilegast er að setja það í, þ.e. ef þetta hefði verið reglan núna þá værum við verið með sex fleiri framsóknarmenn í salnum en annars væri. (Gripið fram í.) Ég set þetta svona fram vegna þess að hv. þingmaður er í Framsóknarflokknum.

Kjósendur hefðu þá í raun, með því að kjósa 12 framsóknarmenn á þing, gefið það rými fyrir Framsóknarflokkinn sem þeir töldu ástæðu til. En síðan með helmingaskiptaaðferðinni við Sjálfstæðisflokkinn væri búið að bæta við sex framsóknarmönnum í viðbót í forustulínu (Forseti hringir.) Framsóknarflokksins í stjórnmálunum. Það fyndist mér of mikið.