133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

stjórnarskipunarlög.

12. mál
[19:43]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek það ekki aftur að ég tel að það mundi hallast enn meira á en hefur þó gerst gagnvart framkvæmdarvaldinu og þeim stjórnum sem eru með þeim flokkum sem eru í ríkisstjórn ef sú leið yrði farin að ráðherrar yrðu ekki þingmenn og það væri bannað.

En ég tel hins vegar að það sem hv. þingmaður sagði um Alþingi sjálft, eigi algerlega við og ábyrgðin á því fyrirkomulagi og þessu ástandi er auðvitað okkar hér, alþingismanna sameiginlega. Það er val Alþingis. Það er val stjórnarliða að þjóna undir framkvæmdarvaldið. Ég efast ekkert um að það hefur verið í gegnum tíðina val stjórnarliða á hverjum tíma, ekki bara þeirra sem eru núna, og því miður allt of langt gengið í því og sjálfstæði Alþingis alls ekki nógu mikið. Vantar þar gríðarlega mikið á.

Mér finnst afar dapurlegt að hafa t.d. fylgst með því þann tíma sem ég hef verið á Alþingi, að fjölmörg ágæt þingmannamál hafa aldrei fengið afgreiðslu hérna. Nú er ekki hægt að biðja um að menn samþykki þingmannamál. Það á auðvitað að vera fólgið í sannfæringu þingmanna hvort þau verði samþykkt eða ekki.

En það á ekki að vera þannig að þau mál komist aldrei til enda í umfjöllun Alþingis og þau dagi uppi og drepist í nefndum. Þannig er það fyrirkomulag sem hér hefur verið. Það væri mikil bót á ef Alþingi reisti sig úr þeirri öskustó, því enginn getur gert það nema alþingismenn sjálfir.