133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

stjórnarskipunarlög.

12. mál
[19:47]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að auðvitað eiga nefndir þingsins að afgreiða þau mál sem til þeirra koma. Ég hef margkomið því á framfæri að ég tel að ein leiðin til að gera þetta sé að breyta þingsköpum með það fyrir augum að mál verði áfram í þingnefnd þótt þingnefnd hafi ekki tök á að ljúka umfjöllun um það á fyrsta vetri. Þannig að mál yrði t.d. tvo vetur í þingnefnd og þá hefur þingnefndin það mál sem um er að ræða sem verkefni á milli þinga, þ.e. yfir sumarið og fram á haust.

Því er haldið fram, og ég veit ekki betur en allir séu sammála um það, að nefndir þingsins séu að störfum yfir sumartímann og þá á auðvitað að vera hægt að láta klára þau mál sem fyrir liggja. Það er undarlegt að mál skuli alltaf vera litin þeim augum að þau séu ónýt og þurfi að endurflytja og það veldur því að málafjöldi hér á þingi er gríðarlegur.

Ef menn fengjust til að líta þannig á að málin væru komin til nefndar og gætu verið þar, og nefndin ætti að klára þau, hún hefði það á starfsskrá sinni yfir sumarið að ljúka umfjöllun um þau mál sem ekki hefði unnist tími til að klára, það mundi breyta þessari stöðu að mínu viti verulega mikið. Og fækka endurflutningi mála.

Þetta gæti verið leið auk þeirra leiða sem hv. þingmaður nefndi hér áðan. En þetta er verkefni sem þingmenn þurfa að sameinast um að standa betur að. Það er í raun og veru eftir mjög miklu að sækjast því sjálfstæði Alþingis er í húfi hvað þetta varðar.