133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

kjarnorkuendurvinnslustöðin í Sellafield.

141. mál
[12:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það mál sem ég ætla að spyrja hæstv. umhverfisráðherra um hefur áður verið rætt hér, fyrir rúmu ári, og snýst um það hvort íslensk stjórnvöld með hæstv. umhverfisráðherra í broddi fylkingar haldi vöku sinni í brýnasta hagsmunamáli þjóðarinnar sem er að tryggja hreinleika hafsins. Hér er um mjög mikla hagsmuni að ræða fyrir Íslendinga. Er getið um það á bls. 17 í nýrri og ágætri skýrslu um árangur Íslendinga við framkvæmd áætlunar um varnir gegn mengun sjávar að lítils háttar aukning hafi orðið á geislavirka efninu teknetíum á síðustu árum og að hæstu gildi mælist við vesturströnd Íslands. Þess vegna ætti öllum að vera ljóst að það eru gríðarlegir hagsmunir fyrir þjóð sem lifir á fiskveiðum að tryggja það að hreinleiki hafsins verði óumdeildur við Íslandsstrendur.

Í stuttu máli er þetta mál þannig vaxið að sumarið 2004 brást leiðsla í kjarnorkuvinnslustöðinni í Sellafield og varð til þess að tugþúsundir lítra af geislavirkum vökva láku út í umhverfið snemma árs 2005. Lekans varð ekki vart fyrr en um miðjan apríl 2005 og í kjölfarið sendi fyrrum umhverfisráðherra Sigríður Anna Þórðardóttir bréf þann 2. júní 2005. Ekkert svar hefur borist frá breskum yfirvöldum við bréfi hennar þar sem íslensk yfirvöld báðu um skýrslu um málið auk þess sem miklum áhyggjum var lýst yfir af starfrækslu endurvinnslustöðvarinnar. Þess má geta að bara það að lekans verður ekki vart fyrr en nokkrum mánuðum eftir að þessi efni láku út í umhverfið sýnir svo að ekki verður um villst að þarna var pottur brotinn. Þess vegna skiptir verulega miklu máli að íslensk stjórnvöld haldi vöku sinni.

Það hafa orðið tíð skipti á umhverfisráðherrum í þessari ríkisstjórn. Nú gegnir því embætti þriðji umhverfisráðherrann og þá er eins gott að halda vöku sinni svo að mál sem eru svo mikilvæg sem þetta falli ekki á milli stafs og hurðar.