133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

aðgerðir gegn skattsvikum.

106. mál
[12:24]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þann áhuga sem hún sýnir þessu máli. Hér er vissulega um stórt og mikilsvert mál að ræða.

Það má segja að frá því að starfshópur um umfang skattsvika skilaði skýrslu sinni sem lögð var fram á Alþingi í desember 2004 hafi verið unnið að því innan ráðuneytisins að skoða einstaka þætti hennar. Almennt má segja að í skýrslunni sé um viðamiklar hugmyndir að ræða sem þarfnast nákvæmrar skoðunar við áður en farið er út í að útfæra þær hugmyndir sem telja má æskilegt að komi til framkvæmda. Þegar er búið að framkvæma eina af tillögum skattsvikanefndarinnar, það er varðandi fyrningu skattsvika sem er nú sex ár frá því tekjuári sem um ræðir. Var sú breyting gerð á skattalögum með lögum nr. 129/2004.

Önnur atriði í tillögum skýrslunnar hafa verið til skoðunar í ráðuneytinu um nokkurt skeið og má þá sérstaklega nefna hugmyndir um CFC-löggjöf, eftirlit með skattskilum stórfyrirtækja, skattlagningu vaxta úr landi, frestun á skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum, virka þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi gegn skattsvikum og endurskoðun ákvæða 57. gr. tekjuskattslaga um skattasniðgöngu.

Aðrar tillögur skýrslunnar eru almenns efnis, eins og breytingar á bótakerfum, upplýsingaskyldur fjármálastofnana o.s.frv. Almennt má því segja að frekari tillagna að aðgerðum gegn skattsvikum með hliðsjón af niðurstöðum skattsvikanefndarinnar sé að vænta á næstunni. Að svo stöddu er of snemmt að segja nákvæmlega til um hvað í þeim tillögum muni felast eða nákvæmlega hvenær þær verða lagðar fram.

Varðandi aðgerðir gegn skattsvikum í stærra samhengi er rétt að geta þess að eftirfarandi vinna, burt séð frá skýrslu skattsvikanefndar, hefur átt sér stað innan ráðuneytisins á því sviði. Að hluta til hefur sú vinna þegar skilað sér inn á Alþingi á yfirstandandi þingi. Í frumvarpi til laga um opinber innkaup sem lagt hefur verið fram á Alþingi eru nýmæli sem ætlað er að koma í veg fyrir skattsvik og gerviverktöku. Þar eru ákvæði sem kveða á um skyldur sem tengjast sköttum, réttindum launþega og vinnuvernd og ákvæði sem kveða á um að könnuð sé viðskiptasaga tilboðsgjafa sem og ákvæði um gerviverktöku. Líta má á þetta frumvarp sem öflugt tæki í baráttunni gegn skattsvikum og hafa SA og ASÍ m.a. fagnað þeim nýmælum sem kveðið er á um í frumvarpinu og snúa að þessum atriðum.

Í samstarfi við ASÍ og SA hefur átt sér stað vinna að undanförnu innan ráðuneytisins og skattkerfisins til að athuga með hvaða hætti hægt sé að berjast gegn skattsvikum sem snúa að lögbrotum í atvinnustarfsemi, eins og gerviverktökum og fleiru. Þar hefur m.a. komið til skoðunar hvort rétt sé að herða reglur í lögum um virðisaukaskatt sem snúa að skráningu í virðisaukaskattsskrá, þ.e. að gera ríkari kröfur um hverjir eigi rétt á að vera á virðisaukaskattsskrám. Geta má þess að á Norðurlöndunum hafa slíkar aðferðir reynst gagnlegar, m.a. í baráttu við gerviverktöku og lögbrot í atvinnustarfsemi. Benda má á að embætti skattrannsóknarstjóra hefur á undanförnum mánuðum verið með í forgangi hjá sér skatteftirlit í veitingastarfsemi og mannvirkjagerð. Hefur það átak skilað góðum árangri. Til skoðunar er innan skattkerfisins að fara í almennt eftirlitsátak gegn skattsvikum í atvinnustarfsemi.

Að öllu samanteknu er því ýmislegt í gerjun á vegum ráðuneytisins og skattkerfisins sem snýr að aðgerðum gegn skattsvikum og vonast ég til þess að geta lagt fyrir þingið fleiri atriði í frumvarpi á þessu þingi, jafnvel fyrir jólahlé.